Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að sér þyki „dapurlegt“ að fylgjast með heimsókn Róberts Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands. „Hann ætti að vita það manna best að það vantar mikið upp á að mannréttindi séu virt og farið sé að reglum réttarríkisins í Tyrklandi,“ ritar Ingibjörg Sólrún á Facebook, en Róbert tók í vikunni við heiðursdoktorsnafnbót frá Istanbúl-háskóla og hefur verið gagnrýndur fyrir.
Ingibjörg Sólrún segir að nú þegar fjögur ár séu liðin frá valdaránstilrauninni í Tyrklandi sé enn verið að ásaka embættismenn, dómara, fræðimenn, blaðamenn, kvenfrelsiskonur, mannréttindafrömuði og fleiri um að vera handbendi hryðjuverkasamtaka – oftar en ekki vegna þess eins að þau lýsa yfir skoðun sem gengur gegn stefnu AKP-flokksins sem Erdogan Tyrklandsforseti leiðir.
„Óvíða eru jafn margir blaðamenn á bak við lás og slá og fjöldinn allur af dómurum og háskólakennurum hafa verið reknir og sóttir til saka á þeirri forsendu að þeir séu hliðhollir hryðjuverkamönnum,“ skrifar Ingibjörg Sólrún, sem sjálf bjó í Tyrklandi þegar valdaránstilraunin var gerð og segist hún gera sér mjög vel grein fyrir alvöru þeirrar árásar.
Hún segir það þó óverjandi að nota valdaránstilraunina sem „afsökun fyrir því að ásækja alla þá sem bjóða pólitískum rétttrúnaði AKP flokksins byrginn og útmála þá sem hryðjuverkamenn. Ég neitaði að taka þátt í því hjá ODIHR og tyrkneskum stjórnvöldum fannst ég eiga að gjalda fyrir það með stöðumissi. Það er í takt við annað,“ segir Ingibjörg Sólrún, en eins og hún ræddi við Kjarnann í kjölfar þess að hún lét skyndilega af störfum hjá ÖSE beittu Tyrkir sér gegn því, ásamt Tadsíkistum, að hún yrði endurráðin sem forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE.
Ástæðan fyrir því að Ingibjörg Sólrún var ekki í náðinni hjá Tyrklandi og Tadsíkistan var að hennar sögn sú að hún var ekki tilbúin að skilgreina ákveðin félagasamtök sem hryðjuverkasamtök.
Segir Róbert hafa tekið þátt í hvítþvætti
„Nú kemur forseti Mannréttindadómsstólsins til Tyrklands, hittir forsetann og aðra ráðamenn og þiggur heiðursdoktorsnafnbót úr þeirra hendi en mannréttindafrömuðurnir, gagnrýnu blaðamennirnir og fulltrúar frjálsu félagasamtakanna fá hvergi að koma nærri. Inn á við í Tyrklandi virkar þetta auðvitað eins og hvítþvottur og til þess eru refirnir skornir,“ segir Ingibjörg Sólrún og gagnrýnir jafnframt þau svör sem Róbert Spanó hefur veitt fjölmiðlum aðspurður út í gagnrýnisraddir, en hann hefur sagt að hefð sé fyrir því að forsetar MDE þiggi heiðursnafnbætur frá ýmsum aðildarlöndum og slíku boði hafi aldrei verið hafnað.
„Róbert Spanó segir að það sé hefð fyrir því að forseti Mannréttindadómstólsins þiggi heiðursdoktorsnafnbót en mér er til efs að það sé hefð fyrir að þiggja hana í ríki þar sem staða mannréttinda er með þessum hætti og hið akademíska frelsi jafn bágborið og það er í Tyrklandi,“ segir Ingibjörg og bendir á að í Tyrkland sé á meðal þeirra ríkja sem verst standi í samanburði á akademísku frelsi.
„Mér er nær að halda að það hafi verið fordild en ekki hefð sem réði því að Róbert Spanó þáði þessa vegtyllu,“ ritar Ingibjörg Sólrún.
Mikið finnst mér dapurlegt að fylgjast með heimsókn Róberts Spano, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands....
Posted by Ingibjörg Sólrún Gísladóttir on Saturday, September 5, 2020