Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þegar verið sé að vega og meta hvort ásættanlegt sé að „hleypa veirunni meira á skrið hér innanlands“ þurfi fyrst að skilgreina nokkra hluti og svara erfiðum spurningum; hver sé ásættanlegur fjöldi sýkinga, hvað sé ásættanlegt að margir leggist inn á sjúkrahús og hvað sé ásættanlegt að margir láti lífið eftir kórónuveirusmit.
Þetta sagði Þórólfur, á upplýsingafundi almannavarna í dag, spurningar sem fáir treysti sér til að svara, en þessar spurningar þurfi að horfast í augu við og svara þegar verið sé að ræða tilslakanir sem gætu haft það í för með sér að veiran yrði útbreiddari í samfélaginu.
Hann sagðist undrast það að heyra það í umræðunni að stefna sóttvarnayfirvalda hérlendis sé ekki skýr, því hann hafi hafi talið að hún væri nokkuð skýr. Sóttvarnalæknir sagði að stefnan væri sú að fletja kúrfuna niður eins mikið og hægt væri með innanlandsaðgerðum og aðgerðum á landamærum og sömuleiðis hefðu sóttvarnayfirvöld hefðu sagt að þau vildu reyna að koma í veg fyrir að veiran bærist hingað til lands með aðgerðum á landamærum sem væru eins áhrifaríkar og lítið íþyngjandi og hægt er.
„Það verður auðvitað erfitt að finna þann balans,“ sagði Þórólfur og bætti því við að það væri ómögulegt að koma alfarið í veg fyrir að hætta væri á að smit bærist inn í landið, en hægt væri að reyna að takmarka það eins og hægt er. „Við erum að vinna með líkur,“ sagði Þórólfur.
Í gærdag greindist ekki eitt einasta smit hér á landi og fjöldi virkra smita innanlands hefur sigið jafnt og þétt undanfarnar vikur. „Ég held að það sé hollt að muna það núna þegar umræðan er að aukast mjög mikið og gagnrýni á það sem verið er að gera að sú staða sem við erum í núna er fyrst og fremst vegna þeirra aðgerða sem við höfum verið að grípa til,“ sagði Þórólfur, sem fór yfir nokkra punkta sem hann vildi koma á framfæri í ljósi umræðunnar um COVID-19 hér á landi að undanförnu.
Enginn ábyrgur aðili gefið út að faraldurinn sé vægari nú
Töluvert hefur verið rætt um það að faraldurinn sé ef til vill vægari en hann var fyrr á árinu. Þórólfur segir að hægt sé að fullyrða að það séu ekki merki um það, hvorki hérlendis né erlendis. „Það eru engir ábyrgir aðilar sem hafa gefið það út,“ sagði Þórólfur.
Lækkandi dánarhlutfall sýktra eftir því sem liðið hefur á árið hefur verið nokkuð til umræðu en Þórólfur segir að ýmsir þættir geti skýrt það, meðal annars það að ungt fólk sé stærri hluti smitaðra og að þeir sem eru viðkvæmir fyrir haldi sig frekar til hlés.
Sóttvarnalæknir segir fulla ástæðu til að taka COVID-19 alvarlega, þar sem að undanförnu hafi langtímaáhrif sjúkdómsins á fólk verið að koma frekar í ljós. Áhrifin kunni að vera meiri á fólk til langs tíma en áður var haldið.
„Alvarleiki þessa faraldurs er ekki einungis mældur í fjölda dauðsfalla,“ sagði Þórólfur og bætti við að dánarhlutfallið væri þó lægra en talið hefði verið í vetur, þegar sumstaðar var ráðgert að það væri jafnvel 2-3 prósent. Á Íslandi, þar sem um 2.000 manns hafa smitast hafa tíu látist eftir COVID-19 smit og samsvarar það 0,5 prósent dánarhlutfalli.
Á upplýsingafundinum sagði Þórólfur ítrekað að það mætti þakka sóttvarnaaðgerðum fyrir þá góðu stöðu sem við erum í núna. Staðan í öðrum löndum sé sú að þar sé faraldurinn í vexti og þar sé verið að grípa til hertari aðgerða, bæði innanlands víða og á landamærum.
„Við eigum að hrósa happi yfir þeirri stöðu sem er á faraldrinum hér á landi í dag og halda áfram að nýta okkur þá reynslu og þekkingu sem okkur hefur áskotnast í baráttunni hingað til,“ sagði Þórólfur.