Sjávarútvegsfélagið Samherji birti nýtt myndband á vefsíðu sinni í gærkvöldi þar sem það segist vera að „leiðrétta rangfærslur“ um félagið Cape Cod FS á Marshall-eyjum, sem Samherji segir að hafi komið fram í umfjöllun Kveiks 26. nóvember í fyrra.
Samherji tiltekur í myndbandinu þrjár „ásakanir“ úr þætti Kveiks og segir að fullyrt hafi verið í þættinum að Samherji hafi átt félagið Cape Cod, að peningar frá Namibíu hafi streymt á reikninga félagsins og verið „þvegnir“ og sömuleiðis að norski ríkisbankinn DNB hafi á endanum lokað á viðskipti Cape Cod af þeim sökum.
Ekkert af þessu þrennu var þó í reynd fullyrt í þessum þætti Kveiks um Samherjaskjölin. Umfjöllun um Cape Cod og DNB hefst eftir 17:50 mínútur í þættinum, sem sjá má hér.
Í fyrsta lagi fullyrti fréttamaður Kveiks ekki að Samherji hefði átt félagið Cape Cod, heldur sagði hann frá því að norski bankinn DNB hefði sjálfur talið að Cape Cod væri í eigu Samherja, þar sem starfsmaður Samherja hefði verið bæði stofnandi og prókúruhafi reiknings Cape Cod í DNB.
Í annan stað var ekkert fullyrt í Kveik um að peningar frá Namibíu hefðu verið „þvegnir“ í Noregi, né að það væri ástæðan fyrir því að reikningi Cape Cod hefði verið lokað.
Hins vegar var sagt frá því í þætti Kveiks að árið 2017 hefðu komið upp rauð ljós við áhættumat innanhúss hjá DNB varðandi viðskiptavininn JPC Shipmanagament, kýpverskt móðurfélag Cape Cod, auk þess sem sagt var frá því að þrátt fyrir það hefði bankinn ekki gripið til aðgerða í samræmi við varnir gegn peningaþvætti fyrr en ári seinna, eða árið 2018.
Einnig kom fram í þættinum að Økokrim, efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar, væri með brotalamir í vörnum DNB gegn peningaþvætti til skoðunar.
Kveikur greindi líka frá því að fjármunir frá dótturfélögum Samherja á Kýpur, sem einnig var með reikninga í norska bankanum, hefðu runnið inn á reikninga í eigu Cape Cod. Sömuleiðis hefði fé runnið frá Cape Cod og inn á reikninga Samherjafélaga, en hvergi var fullyrt að peningaþvætti af hálfu Samherja hefði verið ástæðan fyrir því að reikningum Cape Cod var lokað.
Fréttamaður Kveiks sagði „lítið vitað“ um það af hverju peningar úr Afríkustarfsemi Samherja hefðu streymt um bankareikninga í Noregi, en einnig var sagt frá því að norski bankinn sjálfur hefði bent á að engin þörf virtist vera á því að félögin væru með bankareikninga í Noregi.
Samherji segir hluti slitna úr samhengi
Samherji segir Kveik hafa „gefið í skyn að ástæða lokunarinnar hefði verið möguleg brot í starfsemi Samherja í Namibíu“ og segir hluti hafa verið slitna úr samhengi, þegar Kveikur fjallaði um áhættumat DNB á JPC Shipmanagement.
Samherji gerir athugasemdir við að ekki hefði verið tiltekið í þættinum að millifærslur til Rússlands og Úkraínu hefðu verið veigamikið atriði í því að rauð ljós kviknuðu við áhættumatið. Skjalið var birt í heild sinni í þættinum.
„Ef þú lest þetta skjal sem hefur verið sýnt í Stundinni og í Kveik, þarna er um að ræða rússneska sjómenn og úkraínska. Það hófst stríð á Krímskaga og þá fer Rússland á svartan lista. Það er í raun athugasemdin sem DNB gerir. Að setja svona fram, það er tvennt sem kemur til greina. Annað hvort er það illvilji eða yfirsjón. Ég vil gefa mér það að þetta hafi verið yfirsjón,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja í myndbandinu.
Greiðslurnar sagðar til að tryggja að sjómenn fengju borgað á réttum tíma
Samherji segir að gögn sem hafi mátt finna í Samherjaskjölunum á Wikileaks hafi „skýrt eignarhald Cape Cod og hvernig félagið var notað,“ en að ekkert hafi verið fjallað um þessi gögn í Kveik.
„Mikið hefur verið gert úr greiðslum frá dótturfélögum Samherja á Kýpur til Cape Cod, sem og greiðslum frá Cape Cod til dótturfélaganna, en í þætti Samherja eru þessar greiðslur skýrðar. Um var að ræða lánveitingar og var eini tilgangur þeirra að tryggja að skipverjar frá Rússlandi og Úkraínu, sem störfuðu í útgerðinni í Namibíu, fengju greitt á réttum tíma,“ segir um þetta á vef Samherja, en rakið er í myndbandinu hvernig gjaldeyrishöft í Namibíu töfðu greiðslur til sjómanna.
Í myndbandi Samherja, sem sjá má hér að neðan, segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri reyndar einu sinni að Cape Cod sé kýpverskt félag og á útskýringarmyndum sem Samherji birtir í myndbandinu er Cape Cod sömuleiðis staðsett á Kýpur. Það er ekki reyndin, heldur var Cape Cod FS skráð á Marshall-eyjum, sem eru þekkt skattaskjól.
Norski bankinn DNB sleit viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok síðasta árs, án útskýringa. Ekki hefur komið fram opinberlega af hverju sú ákvörðun var tekin innan bankans, en eftir að málið rataði í norska fjölmiðla snemma í febrúar sagði Björgólfur að hnökralaust hefði gengið fyrir sig að færa bankaviðskiptin annað.