Samherji hf. krefst þess að Seðlabanki Íslands greiði sér 306 milljónir króna í skaðabætur vegna tilfallins kostnaðar sem rannsókn bankans á fyrirtækinu olli. Þar af vill Samherji fá 124 milljónir króna vegna vinnu félagsins Juralis-ráðgjafarstofa slhf. fyrir sig vegna málsins og sjö milljónir króna vegna vinnu félagsins eftir að það breytti nafni sínu í PPP sf.
Þessar greiðslur voru vegna vinnu Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, sem starfaði hefur fyrir Samherja árum saman. Jón Óttar sagði sjálfur, þegar hann bar vitni, að hann hafi skrifað út reikninga fyrir 135 milljónum króna vegna vinnu sinnar fyrir Samherja í tengslum við Seðlabankamálið.
Því er yfir 40 prósent af skaðabótakröfu Samherja vegna greiðslna til félaga sem tengjast Jóni Óttari.
Þetta kom fram í máli Örnu McClure, yfirlögfræðings Samherja, þegar hún bar vitni í bótamáli Samherja og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, gegn Seðlabankanum í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Samherji stefndi í fyrra Seðlabanka Íslands til greiðslu skaða- og miskabóta vegna rannsóknar þess síðarnefnda á ýmsum ætluðum brotum fyrirtækisins á meðan að fjármagnshöft voru við lýði á Íslandi. Samherji fór fram á 306 milljónir króna í skaðabætur og tíu milljónir króna í miskabætur vegna rannsóknar Seðlabankans á fyrirtækinu fyrir nokkrum árum, í máli sem var að lokum fellt niður, auk þess sem Þorsteinn Már stefndi persónulega og fer einnig fram á 6,5 milljónir króna í bætur.
Margir lögmenn í vinnu
Arna sagði að Jón Óttar hefði unnið mjög náið með sér, einkum og sér í lagi innanhúss, til að fara yfir rekstur Samherja þannig að málið myndi bitna sem minnst á almennum starfsmönnum fyrirtækisins. Hann ferðaðist meðal annars erlendis ásamt henni vegna málsins auk þess sem hann greindi með Örnu rannsóknarskýrslur Seðlabankans.
Þorsteinn Már bar einnig vitni og sagði að Samherji hefði lagst í „botnlausa vinnu“ vegna málsins.
Kostnaður vegna eins manns veigamikill hluti
Kjarninn fjallaði um greinargerð Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns Seðlabankans í málinu í fréttaskýringu í lok ágúst, sem var skilað inn til dómstóla í október 2019 og Kjarninn fékk nýlega afhenta hjá bankanum, eru málavextir raktir og fjárkrafa Samherja útskýrð.
Í greinargerðinni segir lögmaður Seðlabankans að tjónið sem Samherji segist hafa orðið fyrir sé ósannað. Í stefnu Samherja sé ekki að finna sundurliðun eða nánari tilgreiningu á því tjóni sem krafist sé undir liðnum skaðabætur og eiginleg sönnunargögn ekki lögð fram. „Þannig er ekkert reifað hvenær einstakir kostnaðarliðir féllu til eða af hvaða tilefni var til þeirra stofnað.“
Hvorki kvittanir né greiðslustaðfestingar hafi verið lagðar fram til sönnunar á þessum útlagða kostnaði. Í greinargerðinni segir: „Ekki er skýring á því í stefnunni hvers vegna þetta mál er höfðað til innheimtu rúmlega 300 milljóna króna í skaðabætur án þess að sönnunargögn fyrir því tjóni séu lögð fram eða að reifun eða sundurliðun á því tjóni sé að finna í stefnunni.“
Meðal annars væri farið fram á „bætur vegna heildarlauna eins starfsmanns um tveggja ára skeið (frá maí 2013 til maí 2015)“. Í greinargerðinni segir að engin reifun sé á því hvað umræddur starfsmaður gerði né hvernig Seðlabanki Íslands eigi að bera ábyrgð á því. „Þá verður að taka sérstaklega fram að á þessu tímabili var málið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara en ekki til meðferðar hjá stefnda“.
Áreitti blaðamann mánuðum saman
Jón Óttar hélt áfram að starfa fyrir Samherja eftir að vinnu hans við Seðlabankamálið lauk. Jón Óttar hefur til að mynda komið að gerð myndbanda sem Samherji hefur látið framleiða fyrir sig, og birt á Youtube, undanfarið þar sem spjótum fyrirtækisins hefur verið beint að RÚV og starfsmönnum þess fjölmiðils.
Kjarninn greindi frá því 27. ágúst síðastliðinn að Jón Óttar hefði allt frá því að umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um viðskiptahætti Samherja í Namibíu birtist þann 12. nóvember á síðasta ári verið tíður gestur á Kaffifélaginu, kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, einatt til að hitta á og ná tali af Helga Seljan – en þar hittist hópur fólks iðulega á morgnana til að spjalla um daginn og veginn.
Kjarninn greindi enn fremur frá því að Jón Óttar hefði ítrekað sent Helga skilaboð, bæði í gegnum SMS og Facebook-reikning eiginkonu sinnar. Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni sem fjallað hefur um Samherja, fékk einnig send skilaboð þar sem honum var hótað „umfjöllun“.
Jón Óttar sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunarinnar og sagði að það hefði verið rangt af sér að senda Helga SMS-skilaboð. Þau endurspegluðu dómgreindarbrest af hans hálfu og hann sagðist sjá mikið eftir að hafa sent þau. Jóni Óttari fannst miður ef þessi gagnrýniverða háttsemi hans yrði á einhvern hátt bendluð við Samherja „og starfsfólk þess því hún er alfarið á mína ábyrgð“.