Enn eru að greinast nokkur tilfelli af kórónuveirunni innanlands á hverjum degi, oftast milli 2-6 daglega. Virkum smitum í heild hefur fækkað hægt en örugglega og sömuleiðis þeim fjölda sem er í sóttkví hverju sinni. „Þetta er það sem við getum búist við að sjá áfram, nokkra einstaklinga að greinast á hverjum degi og litlar hópsýkingar,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Nokkuð stöðugur fjöldi er einnig að greinast við landamærin þrátt fyrir töluverða fækkun farþega. Þar greinast nú daglega allt frá engum og upp í sex. En hlutfall farþega með virkt smit fer vaxandi. Þórólfur sagði að í júní og júlí hafi 0,03 prósent farþega verið með virkt smit en síðustu þrjár vikur hefur hlutfallið verið 0,3 prósent. Vaxandi útbreiðsla faraldursins erlendis er líklegasta skýringin.
60 prósent þeirra sem greinast á landamærum eiga lögheimili á Íslandi.
Þórólfur benti á að útbreiðsla kórónuveirunnar í nálægum löndum fari vaxandi og tók hann Danmörku, Noreg og Bretland sem dæmi. Í hans huga þýði þetta auknar líkur á því að veiran berist hingað til lands. Hann undirbýr nú minnisblað til heilbrigðisráðherra varðandi tillögur að aðgerðum við landamærin en núgildandi reglur sem felast í tveimur sýnatökum með nokkurra daga sóttkví á milli, gilda til 15. september. Þórólfur vildi ekki fara í smáatriðum ofan efni minnisblaðsins en ítrekaði það sem hann hafi áður sagt um að ekki sé rétt að aflétta samtímis aðgerðum á landamærum og innanlands því það gæti skapað töluverða hættu á útbreiðslu veirunnar á ný.
„Mín afstaða hefur í raun ekkert breyst frá síðasta minnisblaði. Það er áfram mitt hlutverk að benda á ýmsar útfærslur og sóttvarnir og þá áhættu sem felst í því að grípa til þeirra aðgerða. Svo þurfa stjórnvöld að meta það í ljósi heildarhagsmuna. Þannig að ég er enn á þeim nótum. Held að við eigum ekki að breyta miklu núna á meðan erum að feta okkur áfram hér innanlands.“
Staðan erlendis hafi versnað frá því hann sendi ráðherra síðast minnisblað um aðgerðir á landamærum. Í samtölum við kollega sína í Evrópu hafi hann komist að því að allir standi frammi fyrir svipuðum spurningum og þær snúist aðallega um hvað eigi að gera á landamærunum. Einhverjir séu að íhuga tvöfalda skimun með sóttkví á milli líkt og gert er hér á landi. Hins vegar benti hann á að ytra sé ekki verið að raðgreina veiruna eins ítarlega og hér er gert til að komast að uppruna hennar. Því er ekki alltaf vitað hvort að aukning í smitum sé út frá sömu veiruafbrigðunum innanlands eða hvort ný afbrigði séu að koma inn erlendis frá.
Takmarkanir innanlands sem tóku gildi nýverið gilda til 27. September. Í þeim felst að 200 mega koma saman og var eins metra regla tekin upp í stað tveggja metra áður. „Eins metra reglan er mjög mikilvæg og kannski sú mikilvægasta í okkar samskiptum í því að hefta útbreiðslu veirunnar,“ sagði Þórólfur.
Hann vill sjá árangur á hverju skrefi í afléttingu takmarkana áður en næstu skref verða tekin en að ef allt gangi vel sé stefnt að því að slaka enn frekar á takmörkunum innanlands eftir 2-3 vikur.
Þá greindi Þórólfur frá því á fundinum að hann hefði nú sent heilbrigðisráðherra minnisblað um að stytta fjórtán daga sóttkví sem fólk innanlands þarf að fara í ef það hefur orðið útsett fyrir veirunni. „Ég held að að gögn og rannsóknir sýni að við getum stytt þessa sóttkví með sýnatöku á sjöunda degi.“