Minjastofnun Íslands segir að áform hennar um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund, í Þerney og á Álfsnesi eigi ekki að hindra lagningu Sundabrautar. Við gerð friðlýsingatillögunar, fyrr á árinu, hafi verið tekið tillit til þeirra valkosta sem lágu fyrir varðandi lagningu brautarinnar á þann hátt að friðlýsingin útilokaði ekki gerð hennar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt hefur verið á heimasíðu stofnunarinnar.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Vegagerðin hefði sent bréf til Minjastofnunar vegna málsins 1. september síðastliðinn.
Þar var áformum Minjastofnunar um friðlýsingu við Þerney og Álfsnes mótmælt, en gert er ráð fyrir að síðari áfangi Sundabrautar liggi frá Gufunesi, um Geldingarnes, yfir Leiruvog, Gunnunes, Álfsnes og Kollafjörð. Orðrétt segir í bréfinu að friðlýsingin geti „haft veruleg áhrif á lagningu Sundabrautar“.
Ebba Schram borgarlögmaður Reykjavíkurborgar sendi í kjölfarið Minjastofnun bréf með athugasemdum borgarinnar á ætlaðri friðlýsingu.
Í bréfinu, sem er dagsett 9. september, er kallað eftir mati stofnunarinnar á því hvort hægt sé að tryggja vernd minja á svæðinu með öðrum hætti en friðlýsingu. Borgarlögmaður segir að mikilvægt sé að slíkt mat fari fram með hliðsjón af því að um sé að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni og stjórnarskrárvarinn eignarétt annars vegna Reykjavíkurborgar og hins vegar fyrirtækisins Björgunar ehf., sem hefur í hyggju að byggja upp frekari starfsemi innan athafnasvæðis fyrirtækisins sem friðlýsingin myndi ná til.
Sundabraut verið á dagskrá í áratugi
Áratugir eru síðan að Reykjavíkurborg og íslenska ríkið settu fyrst fram áform um að leggja Sundabraut. Vegurinn hefur raunar verið hluti af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá árinu 1985 og inni á vegaskrá sem fyrirhugaður þjóðvegur frá 1995.
Í samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034, sem samþykkt var á Alþingi í lok júní síðastliðins, er lagning Sundabrautar inni. Samhliða voru samþykkt lög sem heimil að Vegagerðin geti gert samning við einkaaðila um fjármögnun, framkvæmd, viðhald og rekstur Sundabrautar, enda er framkvæmdin ekki fjármögnuð á samgönguáætlun.
Samþykkt ofangreindra laga og samgönguáætlunar var hluti af stærra samkomulagi um að flýta samgönguframkvæmdum, meðal annars á forsendum svokallaðs samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem fjallar um hvernig kostnaðarskipting við stórframkvæmdir þar verður á milli ríkis og sveitarfélaganna sem mynda svæðið. Í þeim sáttmála er þó ekki talað ákveðið um Sundabraut þurfi að verða að veruleika heldur að við endanlega útfærslu framkvæmda verði „sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“