Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tilkynnti í dag að Evrópusambandið ætlaði sér að „afnema Dyflinnarreglugerðina“ og setja í staðinn upp nýtt samevrópskt stjórnkerfi varðandi málefni hælisleitenda og flóttamanna, sem myndi tryggja að ríki Evrópu tækju jafnari ábyrgð í málaflokknum.
Þetta kemur fram á franska vefmiðlinum France24, sem hefur þetta eftir fréttaveitunni AFP.
Í fréttinni segir að hún hafi kynnt þetta fyrir Evrópuþingmönnum í Brussel í dag. Fyrr í dag flutti von der Leyen sína fyrstu stefnuræðu sem forseti framkvæmdastjórnarinnar og þar kallaði hún eftir aukinni samstöðu ríkja Evrópu í málefnum flóttafólks.
Samkvæmt frétt AFP er búist við því að útfærsla framkvæmdastjórnar ESB á þessum breytingum verði kynnt 23. september, en þrátt fyrir að vilji standi til þessara breytinga hjá ráðamönnum sambandsins þarf hvert og eitt aðildarríki ESB að samþykkja breytingarnar.
Dyflinnarreglugerðinni var komið á innan Schengen-samstarfsins árið 1990 og hefur tvívegis verið tekin til endurskoðunar, síðast árið 2013. Tilgangur hennar er sá að koma í veg fyrir að fólk sæki um alþjóðlega vernd í mörgum Evrópuríkjum á sama tíma og var ætlað að jafna byrði ríkjanna.
Á umliðnum árum hafa ríki í Suður-Evrópu, sérstaklega Grikkland og Ítalía, kvartað undan því að núverandi fyrirkomulag leiði til þess að þau beri of mikinn þunga af málefnum flóttafólks í Evrópu.