„Ég fagna því ef deiluaðilar ná saman og ná samkomulagi og lendingu í ágreiningsmálum. Þetta var nú eitt af því sem okkur í VR fannst í sjálfu sér vera risastórt mál á sínum tíma. Ekki bara gagnvart flugfreyjum, heldur gagnvart samningsrétti stéttarfélaga. Og ef í þessu samkomulagi fellst viðurkenning af hálfu Icelandair, stjórnenda félagsins og stjórnenda Samtaka atvinnulífsins, á því að þeir hafi farið út fyrir þann ramma sem vinnumarkaðurinn hefur sett sér, þá er það í sjálfur sér ekkert nema jákvætt.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við sameiginlegri yfirlýsingu Icelandair og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að ljúka deilum sín á milli. Hann segist hafa fengið að sjá drög að yfirlýsingunni í gær en hann sagði sig úr miðstjórn ASÍ fyrr á árinu.
Kjarninn greindi frá því í dag að miðstjórn ASÍ hefði verið boðuð á fund snemma í morgun. Á þeim fundi var lögð fram sameiginleg yfirlýsing ASÍ og Icelandair Group um að þau lykju deilum sín á milli sem staðið hafa yfir frá því um miðjan júlí, þegar Icelandair Group sagði upp öllum starfandi flugþjónum og -freyjum og sagðist ætla að semja við annað stéttarfélag en þeirra. Þær deilur voru á leið fyrir Félagsdóm en samkvæmt yfirlýsingunni verður fallið frá þeirri vegferð.
Átti ekki von á sáttatón
„Í sjálfu sér hafa mínar skoðanir og mín fyrri ummæli lítið með þetta að gera,“ segir Ragnar Þór þegar hann er spurður út í orð sem hann hefur áður látið falla meðal annars um athafnir Icelandair í kjaradeilu flugfreyja.
Hann segir varðandi tímasetningu samkomulagsins, en í morgun hófst hlutafjárútboð Icelandair Group, að það sýni að málið standi mjög tæpt, sem og hlutafjárútboðið sjálft. „Það hlýtur að vera lýsandi fyrir stemninguna innan félagsins og meðal stjórnenda. Maður skynjar það og les úr þessari miklu óvissu sem er í kringum hlutafjárútboðið og í kringum framtíð félagsins. Allajafna hefði ég ekki talið – miðað við framgang félagsins og stjórnenda Samtaka atvinnulífsins hingað til – að við ættum von á þessum mikla sáttatón. En svo þegar vantar peninga þá eru menn tilbúnir til að ganga lengra en þeir væru annars líklegir til að gera.“
„Enginn þrýstingur af okkar hálfu“
Ragnar Þór segist fagna því mjög að einhver lending sé komin í málið. „Það er aldrei gott að vera með einhvers konar óvissu, hvort sem það er í formi átaka fyrir dómstólum eða eitthvað slíkt. Það gefur okkur færi á því að vinna á hreinni grunni þegar kemur að samskiptum við stórfyrirtæki annars vegar og Samtök atvinnulífsins hins vegar.“
Verkalýðsforystan hefur haldið uppi harðri orðræðu gagnvart Icelandair og Samtökum atvinnulífsins en Ragnar Þór, Drífa Snædal, formaður ASÍ, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa öll gagnrýnt félagið og samtökin harðlega.
Ragnar Þór telur að afstaða innan verkalýðshreyfingarinnar til samkomulagsins verði ekki einhlít. „En hvað okkur hjá VR varðar þá vorum við löngu búin að taka afstöðu í þessu máli. Stjórnin sendi frá sér yfirlýsingu á sínum tíma að beina því til stjórnarmanna lífeyrissjóðs að fjárfesta ekki í Icelandair. Þegar samningar hins vegar náðust og félagið bakkaði á þeirri vegferð, þótt skaðinn hefði verið skeður, þá töldum við í stjórn VR – að þegar deiluaðilar setjast niður og skrifa undir samning og hann síðan samþykktur – ekki forsendur fyrir því að standa við yfirlýsinguna, og við drógum hana til baka.“
Frá þeim tímapunkti hafi algjörlega verið ljóst af þeirra hálfu að málið væri komið inn á borð stjórnar Lífeyrissjóð verzlunarmanna og starfsmanna þar og „það var alveg skýrt að það var enginn þrýstingur settur af okkar hálfu á stjórn lífeyrissjóðsins eða okkar fulltrúa þar inni. Frekar gerðum við þetta til þess að minnka mögulegan þrýsting og gefa fólki andrými til að taka faglega og upplýsta ákvörðun um fjárfestingu í félaginu frá þeim verkfallsreglum sem snúa fyrst og fremst að áhættu og ávöxtun.“
Jákvætt þegar fólk nær saman
Ragnar Þór telur að þessi yfirlýsing ASÍ og Icelandair hafi ekki mikið að segja varðandi hlutafjárútboð félagsins. „Það er bara jákvætt ef fólk nær saman með einhverjum hætti og ég set mig ekkert upp á móti því. Mér finnst það bara vera mjög gott,“ segir hann.
Ragnar Þór bendir á að skoðun hans hafi ekki breyst varðandi stjórn Icelandair. „Skoðun mín truflar ekki fólkið okkar í stjórn lífeyrissjóðsins við ákvarðanatöku – en það er bara þannig að ég hef rétt á minni skoðun. En ég vona bara innilega að félaginu verði bjargað þótt ég hafi þá skoðun að ég treysti ekki stjórnendum Icelandair til að leiða þá vinnu áfram. Mér er auðvitað umhugað um störfin og mér er umhugað um að félagið lifi – en það er ekki sama hvernig því verður bjargað. En ég er áður búinn að segja allt sem ég þarf að segja um stjórnendur félagsins.“