Samgöngu-og innviðanefnd Bandaríkjaþings fordæmdi í dag flugmálastjórn Bandaríkjanna (FAA) fyrir að hafa veitt leyfi fyrir útgáfu Boeing 737 MAX-vélanna í nýrri skýrslu sem var gefin út í morgun.
Skýrslan er afrakstur 18 mánaða rannsóknarvinnu nefndarinnar, sem var ætlað að varpa ljósi á það hvað hafi farið úrskeiðis við þróun flugvélarinnar og leyfisveitingu hennar. Í henni segir að nefndin hafi fundið alvarlega galla á framkvæmd leyfisveitingarinnar, þrátt fyrir að bæði Boeing og FAA hafi haldið því fram að hún væri í samræmi við núverandi reglur.
Samkvæmt nefndinni voru tvö flugslys MAX-vélanna, sem kostuðu 346 manns lífið, „hrikaleg afleiðing“ hönnunarmistaka og lélegrar stjórnunar frá flugvélaframleiðandanum og alvarlegrar yfirsjónar flugmálastjórnarinnar.
Í umfjöllun New York Times um málið kemur fram að nefndin telji reginmistök hafa legið í áherslum Boeing á gróða umfram öryggismál og linkind FAA gagnvart flugvélaframleiðandanum.
FAA var nálægt því að aflétta kyrrsetningu MAX-vélanna fyrr í sumar, eftir röð tilraunaflugferða. Samkvæmt New York Times myndi slík leyfisveiting hafa áhrif á ákvarðanir flugmálayfirvöld annarra landa og jafnvel leiða til þess að vélarnar færu í loftið í vetur.
Í skýrslunni sem gefin var út í dag benti samgöngunefndin hins vegar á fjölda vandamála í hönnun vélarinnar, ásamt uppbyggingu hennar og leyfisveitingu. Nefndin segir það vera nauðsynlegt af Boeing og FAA að takast á við þessi vandamál.
Munu fylgja tilmælunum
Bæði flugvélaframleiðandinn og flugmálastjórnin gáfu frá sér yfirlýsingar þess efnis í dag að þau hyggjast fylgja tilmælum nefndarinnar: „Við höfum unnið hart að því að styrkja öryggismenningu okkar og endurbyggja traust gagnvart viðskiptavinum okkar, yfirvöldum og almenningi,“ kom fram í yfirlýsingu Boeing. Í yfirlýsingu FAA segir einnig að flugmálastjórnin hyggst vinna náið með nefndinni til þess að koma á ráðlögðum breytingum.
Icelandair hefur samtals keypt tólf 737 MAX-vélar og hyggst koma þeim öllum í gagnið innan tveggja ára, samkvæmt fjárfestatilkynningu félagsins. Sex þessara véla eru nú í flota flugfélagsins, en þrjár munu bætast við á næsta ári. Ef fram fer sem horfir mun þriðjungur flotans samanstanda af MAX-vélum.
Fjárfestatilkynning Icelandair fyrir yfirstandandi útboð á hlutafé byggir á þeirri forsendu að MAX-flugvélar félagsins verði teknar í gagnið á síðasta fjórðungi þessa árs.