Ekki var unnt að framkvæma frávísun egypskrar fjölskyldu frá landinu sem fara átti fram í morgun. Fólkið var ekki á fyrirfram ákveðnum stað þar stoðdeild hugðist fylgja þeim úr landi. Þetta kemur fram í tilkynning frá stoðdeild ríkislögreglustjóra í morgun.
Ekki er vitað um dvalarstað fólksins, að því er fram kemur í tilkynningunni. Málið verður áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra en hún mun ekki veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Málið hefur vakið mikla athygli en til stóð að vísa sex manna egypskri fjölskyldu úr landi í dag. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við RÚV í síðustu viku að ekki væri ástæða til að beita sér sérstaklega í málinu.
Láta reyna á brottvísunina fyrir dómi
Magnús Norðdahl, lögmaður Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi, sagði í samtali við RÚV í morgun að látið yrði reyna á brottvísun þeirra fyrir dómi. Hann gagnrýndi enn fremur ummæli sviðsstjóra Útlendingastofnunar í Kastljósi í gær, stofnunin hefði vel getað vísað fjölskyldunni fyrr úr landi.
Magnús sagði að lögregla hefði átt að sækja fjölskylduna á heimili þeirra á Ásbrú klukkan hálfsex í morgun og að þau hefðu átt að fljúga héðan til Amsterdam og þaðan til Kaíró í Egyptalandi. Hann gagnrýndi ummæli sviðsstjóra Útlendingastofnunar og sagði að með þeim væri verið að reyna að skella skuldinni á fjölskylduna.
„Þar sem hann fer með rangt mál að mínum dómi. Og vísar til þess að það hafi verið fjölskyldunni að kenna að þau voru ekki flutt úr landi með vísan í vegabréf þeirra sem þau hafi ekki viljað endurnýja. Hið rétta er að vegabréf tveggja þessara barna runnu út 28. janúar, úrskuðrur kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp 14. nóvember og birtur fjölskyldunni 18. nóvember þar sem þau fengu 30 daga til að yfirgefa landið. Það voru þau ekki búin að gera 30 dögum síðar , 18. desember og frá þeim degi og fram til 28. janúar voru vegabréf fjölskyldunnar gild. Á þeim tíma hefði Útlendingastofnun getað staðið að því, að koma fjölskyldunni úr landi. Það var ekki gert. Þannig að ég tel það mjög ódýrt hjá sviðstjóra Útlendingastofnunar að benda á fjölskylduna í þessu samhengi,“ sagði Magnús við RÚV.