Þrettán ný kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær, sem er mesti fjöldi smita sem hefur greinst innanlands síðan 6. ágúst. Tólf manns greindust eftir að hafa leitað í skimun með einkenni og einn einstaklingur sem fór í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Einungis einn af þeim þrettán sem greindust voru í sóttkví. Alls voru 582 einkennasýni tekin og Íslensk erfðagreining skimaði 135 manns til viðbótar.
Alls eru nú 75 manns í einangrun á Íslandi vegna kórónuveirusmits og 437 manns í sóttkví. Til viðbótar eru 2.118 manns í skimunarsóttkví eftir að hafa komið hingað til lands undanfarna daga, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is. Einn einstaklingur er á spítala með COVID-19.
Sem áður segir voru 12 af þeim 13 sem greindust með COVID-19 ekki í sóttkví og því viðbúið að rakningarteymi almannavarna hafi nóg að gera í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að við fyrstu sýn virðist sem ekki sé um hópsýkingu að ræða, smitin virðist ekki öll tengd. Til stendur að skima fyrir veirunni innan veggja Háskóla Íslands, en þar hafa nokkur smit greinst að undanförnu.