Oddviti Framsóknarflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi fer fram á afsökunarbeiðni frá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og þeim yfirvöldum sem fara með framkvæmd kosninga á Íslandi, vegna misbrests sem varð við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu á höfuðborgarsvæðinu.
Kosið er til sveitarstjórnar í nýja sveitarfélaginu, sem líklega fær nafnið Múlaþing, á morgun. Opið hefur verið fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá sýslumannsembættum um allt land frá 25. júlí. Eða svo átti að vera.
Austurfrétt sagði frá því í vikunni að heyrst hefði af því að kjósendur sem ætluðu að nýta kosningarétt sinn á höfuðborgarsvæðinu og koma atkvæðum sínum austur á land hefðu fengið þau svör hjá sýslumannsembættinu að starfsmenn könnuðust ekkert við þessar meintu kosningar, eða að hjá þeim ætti að vera hægt að kjósa utan kjörfundar.
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, sagði í færslu á Facebook í gær að málið væri lýsandi dæmi um það sem íbúar landsbyggðanna þyrftu að glíma við.
„Við göngum til mikilvægra kosninga en sú stofnun sem er ætlað að tryggja að íbúar geti nýtt lýðræðislegan rétt sinn kannast bara ekkert við málið. Virðingar- og skeytingarleysið í þessu gengur langt út yfir allan þjófabálk. Fólk var að taka sér tíma til að fara á skrifstofurnar í Kópavogi og mætti síðan þessu viðhorfi. Gjörsamlega óþolandi og ég ætlast til þess að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og þau yfirvöld sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninga hér á landi biðjist opinberlega afsökunar,“ skrifaði Stefán Bogi.
Vitað um tvö tilvik – báðir búnir að kjósa núna
Róbert Ragnarsson, sem er starfsmaður undirbúningsstjórnar vegna sameiningarinnar eystra, segir í samtali við Kjarnann að einhver misskilningur virðist hafa komið upp innan embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og að hann viti til þess að tveir kjósendur hafi verið sendir í burtu eftir að hafa gert sér ferð til þess að greiða atkvæði.
Þegar hann heyrði af þessu setti hann sig strax samband við dómsmálaráðuneytið, sem hnykkti á því við sýslumannsembættið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla væri í gangi. Báðir kjósendurnir sem Róbert veit til þess að vísað hafi verið í burtu sneru aftur til sýslumanns og hafa greitt atkvæði.
Bjarni Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar í nýja sveitarfélaginu, segir við Kjarnann að utankjörfundaratkvæðagreiðslan sé algjörlega á forræði sýslumannsembættanna hringinn um landið. Hann sagði einnig að eitthvað virðist hafa skort upp á upplýsingaflæðið fyrir sunnan, því miður, en að hann vissi ekki betur en að búið væri að bæta úr því.
Heimastjórnarframbjóðendur komnir fram
Auk hefðbundinna listakosninga til sveitarstjórnar nýja sveitarfélagsins, þar sem fimm framboð keppast um sæti, verður einnig persónukjör til svokallaðra heimastjórna, sem verða fjórar talsins. Allir íbúar með kosningarétt eru í raun í framboði til þessara heimastjórna, en kjósendur munu þurfa að skrá bæði fullt nafn og heimilisfang frambjóðenda til heimastjórnar á kjörseðilinn – og það má bara kjósa einn einstakling.
Bjarni segir að í raun sé atkvæðagreiðslan alveg tvöföld, kjósendur muni fá tvo kjörseðla, einn til sveitarstjórnar og annan til heimastjórnar. Spurður hvort það gæti ekki reynst tímafrekt að telja atkvæðin til heimastjórna segir Bjarni að það gæti orðið „einhver Excel-vinna“ en bendir um leið á að þeir sem hafi hug á því að taka sæti í heimastjórnum séu búnir að gefa kost á sér formlega og upplýsingar um frambjóðendur séu aðgengilegar á vef nýja sveitarfélagsins. Því sé ólíklegra að atkvæðin dreifist á mjög marga.
Ekkert verður þó á kjörstöðum til þess að minna á það hverjir eru í framboði til kjörstjórna, kjósendur fá einfaldlega tóman kjörseðil þar sem þeir eiga að skrifa nafn og heimilisfang þess sem þeir ætla að kjósa.
Bjarni segir að íbúaskrár verði aðgengilegar á kjörstöðum, en best væri þó ef kjósendur myndu hafa heimilisfang þess sem þeir ætla að kjósa í heimastjórn á morgun á hreinu.