Sóttvarnarlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra tilkynntu að vínveitingahúsið þar sem sjö manns sem greinst hafa með veiruna voru á síðasta föstudag hafi verið Irishman Pub á Klapparstígi 27.
Í tilkynningunni segir að ekkert bendi til þess að sóttvörnum hafi verið áfátt á veitingastaðnum, en nauðsynlegt sé að hafa uppi á þeim sem þar voru til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar. Er þeim sem sóttu staðinn síðasta föstudag á milli klukkan 16:00 og 23:00 því boðið að mæta í sýnatöku. Á morgun geta þeir sem þar voru farið á heimasíðu heilsuveru og skráð sig í sýnatöku.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði að sjö einstaklingar af þeim 32 sem greindust síðustu tvo sólarhringa hafi komið inn á sama vínveitingahúsið samkvæmt frétt Vísis.