Veitingastaðurinn Brewdog hvetur þá sem heimsóttu staðinn föstudaginn 11. september eða laugardaginn 12. september til þess að fara í skimun, en í ljós hefur komið að einn starfsmaður sem var að vinna þá helgina hefur greinst með COVID-19.
„Við fengum þær upplýsingar frá smitrakningateymi síðdegis á fimmtudag að hugsanlega hafi smitaður viðskiptavinur komið til okkar föstudaginn 11. september. Allt okkar starfsfólk fór strax í skimun í gær, föstudaginn 18. september
Fyrr í dag fékk svo einn starfmaður okkar símtal um að hann væri smitaður af COVID-19. Allt annað starfsfólk fékk neikvæða útkomu. Þessi umræddi starfsmaður var síðast á vakt um síðustu helgi, var bæði föstudag og laugardag, og hefur ekki komið inná staðinn síðan. Grunur leikur á að hann hafi smitast af gesti frá þessum föstudegi,“ segir í færslu á Facebook-síðu staðarins, þar sem fram kemur að staðurinn hafi unnið þétt með smitrakningateymi almannavarna frá því að upplýsingar bárust um mögulegt smit.
„Við viljum hvetja alla viðskiptavini okkar sem voru á staðnum á föstudaginn 11. september eða laugardaginn 12. september til þess að fara í skimun,“ segir í færslu Brewdog, sem Andri Birgisson framkvæmdastjóri staðarins undirritar.
Víðir hvatti staði til þess að sýna ábyrgð og láta vita
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að eigendur einhverra skemmtistaða, þar sem smitaðir einstaklingar hefðu verið á ferð, hefðu eindregið óskað eftir því að staðir þeirra yrðu ekki nafngreindir opinberlega.
Víðir sagði ennfremur að yfirvöld teldu sig ekki hafa heimild til þess að greina frá nöfnum staðanna, en hvatti eigendur skemmtistaðanna sem um ræðir til þess að sýna samfélagslega ábyrgð og láta viðskiptavini sína vita. Hann sagði að hann teldi að enginn myndi tapa á því.
Kæru viðskiptavinir. Við fengum þær upplýsingar frá smitrakningateymi síðdegis á fimmtudag að hugsanlega hafi smitaður...
Posted by BrewDog Reykjavík on Saturday, September 19, 2020