Ruth Bader Ginsburg, hæstaréttardómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, lést í gær 87 ára gömul. Banamein hennar var tengt krabbameinsæxli í brisi sem hún greindist með fyrir um ári.
Ginsburg var skipuð í Hæstarétt Bandaríkjanna árið 1993 af Bill Clinton og tilheyrði frjálslyndari hluta réttarins. Hún var þá önnur konan frá upphafi sem setið hefur sem dómari við réttinn.
Ginsburg greiddi atkvæði með mörgum stærstu mannréttindaúrbótum sem rétturinn hefur fellt dóma um á undanförnum áratugum. Þar ber helst að nefna í málum sem snúa að rétti kvenna til fóstureyðinga, hjónabandi samkynhneigðra, kosningarétti, í málefnum innflytjenda, heilbrigðismálum og þar sem tekist hefur verið á um jákvæða mismunum á grundvelli kynþátta.
Ginsburg rataði í ítrekað á ýmsa lista yfir áhrifamestu konur heims á síðustu árum, og jafnvel sögunnar.
Pólitískur stormur á leiðinni
Andlát Ginsburg, tæpum sjö vikum fyrir komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum, hefur strax gert skipun næsta hæstaréttardómara að kosningamáli. Þegar Antonin Scalia, íhaldssamur hæstaréttardómari við réttinn, lést í febrúar 2016, ákváðu repúblíkanar í öldungadeild Bandaríkjaþings að koma í veg fyrir að Barrack Obama gæti skipað nýjan dómara í hans stað, en þeir voru þá sem nú með meirihluta þingmanna í deildinni. Merrick Garland, sá sem Obama ætlaði sér að skipa, varð því aldrei dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna.
Hinsta ósk hennar að nýr forseti velji eftirmanninn
Nú er annað hljóð í skrokki McConnells, þrátt fyrir að mun styttra sé til kosninga nú en þegar að Scalia lést. Hann gaf það strax út í gær að kosið yrði um þann sem Trump myndi tilnefna, sem búist er við að gerist strax í næstu viku, í öldungadeildinni áður en nýr forseti verður eiðsvarinn í embætti í janúar 2021. Í bandarískum fjölmiðlum er haft eftir fjölmörgum repúblíkönum að þeir voni að forsetakosningarnar geti nú farið að snúast meira um að velja eftirmann Ginsburg, en minna um COVID-19, kynþáttamismunun og efnahagsástandið. Það eru allt atriði sem leitt hafa til þess að Trump er, samkvæmt könnunum, nokkuð langt á eftir Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, í fylgi jafnt á landsvísu og í helstu barátturíkjum sem þurfa að vinnast til að ná fleiri en 270 kjörmönnum og verða næsti forseti Bandaríkjanna.
Biden hefur þegar sagt að hann vilji að næsti forseti tilnefni næsta dómara og barnabarn Ginsburg sagði við NPR að það hefði verið helsta ósk ömmu sinnar á dánarbeði sínu að eftirmaður hennar yrði ekki valinn fyrr en nýr forseti tæki við.
Donald Trump sagði, þegar honum var greint frá andláti Ginsburg, að hún hefði lifð ótrúlegu lífi. „Hún var ótrúleg kona hvort sem þú varst sammála henni eða ekki. Hún var ótrúleg kona sem lifði ótrúlegu lífi.“