Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Íslendingar þurfi að viðurkenna að ýmislegt misjafnt hafi átti sér í ferðamannabransanum á árunum eftir hrun og áður en COVID-19 faraldurinn skall á. Þetta kom fram í ítarlegu viðtali við Kjarnann í síðustu viku.
Hún rifjar upp að þúsundir karla og kvenna hafi verið hvattir til að flytjast hingað til lands á góðæristímanum til þess að starfa í ferðamannaiðnaðinum. Nú sé staðan önnur og mun gríðarlegur fjöldi aðflutts fólks verða atvinnulaus. Af þessu hafi hún miklar áhyggjur og vísar hún í nýlega skýrslu um aðstæður erlends vinnuafls í ferðaþjónustunni.
Kjarninn fjallaði um skýrsluna í júlí síðastliðnum en í henni kom meðal annars fram að algengustu brot í ferðaþjónustu væru að fólk fengi vangreidd laun miðað við ákvæði kjarasamninga um skipulag vakta og álagsgreiðslna í vaktavinnu eða skiptingu launa í dagvinnu og eftirvinnu.
Höfundar skýrslunnar tóku viðtöl við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og einnig við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu víða um landið. Talað var um jafnaðarlaun og tvískiptar vaktir sem sérstakt vandamál í ferðaþjónustu, sem fæli í sér brot á kjarasamningum.
Eigendum fjármagnsins leyft að fara sínu fram
Sólveig Anna segir í þessu samhengi að við búum í hagkerfi sem sé knúið áfram með því að leyfa eigendum fjármagnsins og atvinnutækjanna að fara sínu fram með stuðningi ríkissjóðs.
Nú hafi stjórnvöld og þeir sem hagnast hafa á vinnu þessa fólks tækifæri til að sýna að það sé mikils metið og „sannarlega ekki bara eitthvað einnota drasl sem hægt er að kasta í ruslið um leið og það hentar íslensku hagkerfi – heldur að það muni fá til baka það sem það á inni hjá ríkissjóði og þessu samfélagi í hækkun bóta, atvinnuskapandi verkefnum og í því að hér verði brugðist við þessu ástandi með uppbyggilegum og skynsömum hætti með þarfir vinnandi fólks í fyrirrúmi.“
Hún segir að ef vinnandi fólk á Íslandi nái að setja fram kröfur sínar með nægilega skýrum og einbeittum hætti í algjörri samstöðu þá hafi stjórnvöld ekki mikið um annað að ræða en að fallast á kröfurnar. Það sé lykilatriðið.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.