„Fólk verður að fylgja reglunum og ef það gerir það ekki munum við bregðast við með miklu harðari aðgerðum,“ sagði Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, um helgina.
Varnaðarorð hans voru ekki að tilefnislausu. Önnur bylgja kórónuveirufaraldursins er við það að skella á. Hann útilokar því ekki að aftur verði gripið til útgöngubanna og almennrar lokunar í samfélaginu, líkt og Bretar þurftu að búa við frá upphafi fyrstu bylgju og þar til í júlí.
Ný auglýsing stjórnvalda gefur tóninn. Það ætti ekki að fara framhjá neinum að þeim er alvara. Hún minnir einna helst á flóðbylgjuviðvörun. „Ef þú greinist með kórónuveiruna eða ert beðinn að fara í einangrun vegna smitrakningar þá þarft þú samkvæmt lögum sem taka gildi 28. september að vera í einangrun til að lágmarka útbreiðsluna.“
Þeir sem brjóta lögin eiga yfir höfði sér háar fjársektir, að minnsta kosti 1.000 pund, um 175 þúsund krónur. Sektirnar fara svo stighækkandi eftir alvarleika brotanna.
From 28 September people will be required by law to self-isolate, those breaking the rules face fines starting at £1,000, increasing up to £10,000.
— UK Prime Minister (@10DowningStreet) September 20, 2020
A £500 Test & Trace Support payment will be available for those on lower incomes who can't work from home.https://t.co/bNwkeYdWVf pic.twitter.com/0V9sEojjsI
„Ég vil ekki sjá aðra lokun samfélagsins,“ sagði Hancock við BBC um helgina. „Eina leiðin til að forðast það er að fólk fylgi reglunum.“
Tilefnið er augljóst: Staðfestum smitum af kórónuveirunni hefur farið hratt fjölgandi á Bretlandseyjum síðustu daga. Á laugardag greindust svo 4.422 ný tilfelli og hafa þau ekki verið fleiri frá því í byrjun maí.
Og vetrarmánuðir eru framundan. Mánuðir þar sem fólk heldur til innandyra sem skapar ákveðna hættu þegar kórónuveiran er annars vegar. „Við erum komin á hættuslóðir,“ hefur Guardian eftir Patrick Vallance, helsta ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar þegar kemur að faraldrinum. Landlæknirinn Chris Whitty segir að meta þurfi stöðuna og aðgerðir framundan með áskorun vetrarmánaðanna í huga. Þeir munu báðir ávarpa almenning á daglegum upplýsingafundi stjórnvalda sem þykir til marks um alvarleika málsins.
Borgarstjóri London, Sadiq Khan, íhugar staðbundnar aðgerðir. Hann vill bregðast við fyrr en síðar til að freista þess að ná tökum á aukinni útbreiðslu í borginni.
Bretar eru langt í frá einir þegar kemur að því undirbúningi fyrir aðra bylgju faraldursins. Önnur Evrópuríki standa frammi fyrir sama vanda: Smitum hefur fjölgað hratt í haust og vísbendingar eru um að dauðsföllum, sem voru hlutfallslega mun færri í sumar en í vetur, fari einnig fjölgandi.
Smitsjúkdómastofnun Evrópu, ECDC, greindi frá því í gær að daglega hefðu að meðaltali yfir 45 þúsund manns greinst með veiruna í ríkjum Evrópusambandsins séu tölur síðustu tveggja vikna teknar saman. Dánartíðni af völdum COVID-19 hefur verið stöðug í 72 daga í Evrópu en þó hefur hún farið hækkandi í Búlgaríu, Króatíu, á Möltu, í Rúmeníu og á Spáni.
Flest ríki höfðu slakað á hömlum en stjórnvöld óttast nú aukið álag á sjúkrahús og því vofa hertar takmarkanir yfir á ný.
Fyrir helgi ákváðu borgaryfirvöld í Madrid á Spáni að herða aðgerðir á nýjan leik en þriðjungur nýrra tilfella á Spáni að undanförnu hefur greinst í borginni. Þar hafa greinst yfir 12 þúsund ný smit daglega um skeið og á föstudag voru þau 14 þúsund. Um 850 þúsund borgarbúa sæta nú útgöngubanni. Allt eru það íbúar í hverfum þar sem faraldurinn er mjög útbreiddur. Fleiri stórborgir en Madrid og London glíma við sambærilega „heita reiti“. Í Vínarborg hefur smitum einnig fjölgað hratt svo dæmi sé tekið.
Grímuskylda og staðbundnar aðgerðir
Áhyggjur fara einnig vaxandi í Frakklandi þar sem yfir 13 þúsund ný tilfelli greindust á föstudag og hafa þau ekki verið fleiri frá því í apríl. Aukningunni hafa fylgt fleiri sjúkrahúsinnlagnir. Dæmi eru um að gjörgæsludeildir sjúkrahúsa séu við það að fyllast.
Tékkar ákváðu að taka upp grímuskyldu í skólum í síðustu viku og hertar takmarkanir tóku í gær gildi á veitingahúsum, kaffihúsum og öldurhúsum á sex svæðum í Hollandi. „Þú þarft ekki að vera stærðfræðingur eða faraldsfræðingur til að skilja að þessi fjölgun mun að lokum skila sér inn á sjúkrahúsin,“ segir Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, en smitstuðulinn þar í landi gefur til kynna að með sama áframhaldi muni um 10 þúsund ný smit greinast daglega.
Ítalía varð hvað verst úti af öllum löndum Evrópu í fyrstu bylgju faraldursins og fjöldi nýrra daglegra smita er nú á pari við fjöldann í maí. Á laugardag greindust yfir þúsund smit í Póllandi of hafa þau aldrei verið fleiri.
Ýmsir þættir eru taldir geta skýrt þá stöðu sem nú er komin upp. Að einhverju leyti má fjölgun staðfestra smita rekja til þess að fleiri sýni eru nú tekin í mörgum löndum en í fyrstu bylgju faraldursins. Þegar tölur um dauðsföll af völdum COVID-19 eru skoðaðar kemur í ljós að um miðjan apríl er talið að um 3.500 manns hafi látist í Evrópu daglega en um miðjan september voru um 500 andlát á dag rakin til sjúkdómsins. En þróun smita og skyndileg fjölgun þeirra er engu að síður vísbending um að faraldurinn sé að breiðast hraðar út en síðustu vikur og mánuði.
Líkt og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt síðustu daga, eftir að tilfellum COVID-19 fór að fjölga hér á landi, þá hefur fólk snúið aftur í skólana samhliða því sem tilslakanir hafa verið gerðar á ýmsum sóttvörnum miðað við það sem var í fyrstu bylgju faraldursins í vetur. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, telur skýringuna einnig geta falist í því að samhliða tilslökunum hafi almenningur sofnað á verðinum hvað varðar einstaklingsbundnar sýkingavarnir. Hér á landi líkt og víðast annars staðar í Evrópu er yngra fólk að sýkjast frekar en það eldra líkt og í fyrstu bylgju sem skýri það að færri hafa veikst alvarlega og þurft að leggjast inn á sjúkrahús.
Í Evrópu búa um 750 milljónir manna, 4,4 milljónir hafa greinst með veiruna og yfir 217 þúsund látist vegna COVID-19. Miðað við þær tölur er staðan í álfunni þó betri en í Bandaríkjunum þar sem 6,7 milljónir hafa greinst með veiruna og tæplega 200 þúsund látist af völdum sjúkdómsins af um 330 milljónum manna sem þar búa. Miðað við opinberar dánartölur er talið að einn af hverjum fimm sem deyja í heiminum um þessar mundir af COVID-19 sé búsettur í Bandaríkjunum.
„Það er engin spurning og ég hef sagt það vikum saman að við gætum séð aðra bylgju og nú erum við að sjá það gerast,“ sagði Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands fyrir helgi. „Við sjáum það gerast í Frakklandi, á Spáni og víðar í Evrópu. Það var því algjörlega óumflýjanlegt að það sama myndi gerast í okkar landi.“
Hvergi í Evrópu hafa fleiri látist vegna COVID-19 en í Bretlandi eða yfir 40 þúsund manns. Í síðustu viku voru kynntar til sögunnar hertar samkomutakmarkanir á Englandi. Johnson naut mikils stuðnings þrátt fyrir harðar aðgerðir stjórnvalda í fyrstu bylgju faraldursins en nú hefur „fallið á gljáann“ eins og það er orðað í leiðurum blaða á hægri væng stjórnmálanna, s.s. Daily Telegraph og Times of London.
Gagnrýnin snýr aðallega að burðum yfirvalda til sýnatöku og smitrakningar. Stórkostleg vandamál sköpuðust í vetur vegna getuleysis á þessu sviði og enn hefur ekki tekist að leysa þau flest. Það hefur Johnson sjálfur viðurkennt.
Mótmæla hörðum aðgerðum
Hópar fólks fóru út á götur Lundúna um helgina til að mótmæla því að aðgerðir yrðu hertar aftur. Slík mótmæli hafa einnig farið fram í öðrum Evrópulöndum. Einnig eru skiptar skoðanir meðal sérfræðinga hvort að strangar hömlur á samkomur og ferðalög séu rétta leiðin á þessum tímapunkti.
Mark Woolhouse, prófessor í faraldsfræði við Edinborgarháskóla, segir að þótt lokun samfélaga hafi hægt á útbreiðslu faraldursins í fyrstu bylgjunni hafi það „einfaldlega ýtt vandanum til um nokkra mánuði“. Hann sagði í samtali við CNN nýverið að svipuð staða blasi nú við og í mars: Veiran er á kreiki úti í samfélaginu og getur valdið stórkostlegum faraldri rétt eins og þá. Og það að við séum í sömu stöðu þá og nú sýni einfaldlega að vandamálið hafi ekki verið upprætt heldur því aðeins frestað.
Woolhouse sagði að yfirvöld hefðu nú mun meiri þekkingu en áður, viti hvað skili árangri og hvað ekki, og að miðað við allar þær upplýsingar sem aflað hefur verið gætu staðbundnar aðgerðir skilað betri árangri en það að skella heilu samfélögunum í lás líkt og gert var í vetur.
Hann benti á að smitstuðullinn, R-stuðullinn, væri sú tala sem horfa ætti á – fjöldi smita segði alls ekki alla söguna þegar mun fleiri sýni væru tekin en áður. Í fyrstu bylgju hafi R-stuðullinn farið nálægt þremur í Bretlandi og „ég sé ekki fyrir mér að því verði leyft að gerast aftur“.