Fjárfestar hafa lagt fram óformlegar fyrirspurnir til Símans um möguleg kaup á innviðahluta fjarskiptafyrirtækisins, Mílu. Síminn bendir á alþjóðlega þróun hjá fjarskiptafyrirtækjum í aðskilnaði á rekstri sínum, en forstjóri Sýnar hefur einnig viðrað slíkar hugmyndir fyrir sitt fyrirtæki nýlega.
Guðmundur Jóhannson, samskiptafulltrúi Símans, greindi blaðamanni Kjarnans frá áhuga fjárfesta á mögulegum kaupum á Mílu í svari við fyrirspurn. Þó bætti hann við að Síminn hafi ekki haft frumkvæði að því að kynna sölu á innviðahluta fyrirtækisins og að engar ákvarðanir hafi verið teknar um söluna.
Aðskilnaður þegar hafinn
Síminn hefur nú þegar aðskilið innviðastarfsemi sína frá þjónustustarfseminni að einhverju leyti, en í síðasta ársfjórðungsuppgjöri kynnti félagið fyrirhugaðan flutning á farsímadreifikerfi og IP-neti til Mílu. Samkvæmt Símanum myndi þetta styrkja Mílu sem innviðafélag og skerpa á hlutverki Símans sem þjónustufyrirtækis. Enn fremur sagði Orri Hauksson forstjóri félagsins að verið væri að skoða hvort aðskilja eigi fjármögnun Mílu frá fjármögnun Símans í tilkynningu sinni til fjárfesta meðfram uppgjörinu.
Mögulega að bjóða hluta fjarskiptakerfisins á sölu
Samhliða mögulegri sölu á Mílu hafa sams konar vangaveltur verið á teikniborðinu hjá Sýn. Í síðasta árshelmingsuppgjöri félagsins segir Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar að verið sé að færa meiri rekstur og fjárfestingar í Sendafélagið, innviðahluta fjarskiptafélagsins sem er rekið með Nova. Þetta telur Heiðar munu bæta arðsemi rekstrar farsímakerfisins.
„Það er svo til athugunar að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, sem myndi skila umtalsverðu fjármagni til hluthafa. Alþjóðlegir aðilar hafa mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja og margfaldarar í viðskiptum eru mun hærri en gerist á almennum hlutabréfamarkaði,“ bætir Heiðar svo við.
Fordæmi frá Danmörku, Tékklandi og Ítalíu
Mögulegur aðskilnaður innviðahluta og þjónustustarfsemi Símans og Sýnar er ekki án fordæma, en fjarskiptafyrirtæki víða um Evrópu hafa farið í sams konar endurskipulagningar á síðustu árum. Árið 2014 skapaði tékkneski hluti fjarskiptafyrirtækisins O2 sérstakt félag fyrir innviðastarfsemina sína, en samkvæmt umfjöllun ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um málið græddu hluthafar mjög á þessum aðskilnaði.
Í fyrra lauk svo aðskilnaði innviða-og þjónustuhluta danska fjarskiptafyrirtækisins TDC, að frumkvæði nýrra fjárfesta sem komu inn í félagið.
Ítalska ríkisstjórnin hefur einnig viljað aðskilja innviðastarfsemi fjarskiptafyrirtækisins Telecom Italia (TIM) frá þjónustustarfsemi þess, en fyrir þremur vikum síðan tilkynnti TIM sölu á þriðjungi landlína fyrirtækisins til hins opinbera. Samkvæmt frétt Yahoo um málið ætti salan að leiða til þess að fjarskiptainnviðir á Ítalíu séu í höndum hins opinbera, rétt eins og orku-og rafmagnsinnviðir landsins.