„Við vitum auðvitað að þeir sem hafa fengið alvarlegar veirusýkingar eru viðkvæmari í lungunum og viðkvæmari fyrir fylgisýkingum, til dæmis bakteríusýkingum,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag, spurð hvort að þeir sem fengið hefðu COVID-19 þyrftu að viðhafa sömu sýkingarvarnir og aðrir.
Hún sagði dæmi um að fólk sem fékk COVID-19 í vetur hafi fengið lungnabólgu mörgum vikum síðar. „Það er fyllsta ástæða fyrir þetta fólk að fara með gát.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að litið væri svo á að þeir sem hefðu fengið staðfesta COVID-sýkingu fái hana ekki aftur en hann benti hins vegar á að ekki væri enn vitað hversu lengi ónæmi gegn veirunni endist. Þeir sem hafi fengið COVID-19 ættu því áfram að gæta vel að sér. Aðrar sýkingar væru „þarna úti“ og sérstaklega ættu þeir sem teldu sig viðkvæma eftir COVID-sýkinguna að passa sig.
Hann sagðist ekki geta fullyrt að fólk sem hefði fengið COVID væri komið í sérstakan áhættuhóp hvað aðrar sýkingar varðar, „en við erum farin að heyra það frá fólki hvað það er viðkvæmt,“ bætti hann við. Hafin væri rannsókn á eftirköstum COVID-veikinda í samvinnu við Landspítalann.
Alma benti á að þó að viðkomandi væri sjálfur ónæmur fyrir að kórónuveirunni gæti hann engu að síður orðið fyrir því að bera smit, til dæmis ef hann fengi veiruna á hendurnar. „Þannig að auðvitað þurfa allir að gæta þessara sóttvarna áfram.“