Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að ábendingum sem berast um hugsanleg brot á sóttkví sé fylgt eftir og að hægt sé að beita sektargreiðslum líkt og gert var gagnvart erlendum ferðamönnum sem handteknir voru í miðbæ Reykjavíkur um helgina. Haft var eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni yfirlögregluþjóni á frétt RÚV í dag að fólkið hafi ekki ætlað sér að vera í sóttkví eftir komuna til landsins og því hafi athæfi þeirra verið metið sem ásetningsbrot.
Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag var Víðir spurður hvort að tilefni væri til að herða eftirlit með þeim sem koma hingað til lands.
„Þetta er grundvallarspurning um í hvernig samfélagi við viljum búa,“ svaraði Víðir. „Viljum við búa í samfélagi með mjög miklu lögreglueftirliti eða í samfélagi þar sem við treystum borgurunum?“
Hann sagði að reynt væri að feta milliveginn. Ábendingum um hugsanleg brot á sóttkví sé fylgt eftir og ef grunur sé uppi um slíkt sé til rammi sem grípi þau mál, eins og hann orðaði það, líkt og gerðist í tilfelli ferðamannanna um helgina. Þeim var gert að greiða sekt og eru farnir úr landi. Víðir sagði að getan til eftirlits væri til staðar. Sérstakt eftirfylgniteymi tékkar t.d. á öllum þeim sem ekki skila sér í seinni skimun eftir komuna til landsins.
„Ég veit ekki hvað við eigum að gera meira í eftirliti,“ sagði Víðir. „Ég er nú ekki sérstaklega spenntur fyrir því að hér sé lögreglan að banka á dyr og kanna hvort að fólk sé í sóttkví eða ekki. Mér finnst það ekki spennandi veruleiki.“