Af þeim 119 sem greindust með COVID-19 í landamæraskimun frá 15. júní til 18. september voru 32 með íslenskt ríkisfang, 23 frá Póllandi og 13 frá Rúmeníu, en alls greindist fólk frá að minnsta kosti 26 mismunandi ríkjum í landamæraskimuninni á þessu tímabili, auk þess sem þjóðerni níu einstaklinga voru ekki skráð.
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni þingmanni Miðflokksins sem birt hefur verið á vef Alþingis. Gunnar Bragi spurði ráðherra einnig út í ríkisfang þeirra sem greinst hafa með COVID-19 eftir smit innanlands, en þeim upplýsingum er ekki safnað.
Hins vegar er lögheimili þeirra skráð og þann 18. september höfðu 2.075 með lögheimili á Íslandi smitast af veirunni innanlands, af alls 2.113 sem þá höfðu greinst með veiruna. Síðan þá hefur fjöldi smita aukist mikið og nú hafa í heildina 2.695 manns greinst með COVID-19 innanlands.
Gunnar Bragi spurði ráðherra einnig út í ríkisfang þeirra sem væru í sóttkví, bæði heima fyrir og í sóttvarnahúsum yfirvalda. Upplýsingum um ríkisfang þeirra sem eru skikkaðir í sóttkví heima hjá sér er ekki safnað af hálfu íslenskra yfirvalda, en ríkisföngum þeirra sem eru í sóttvarnahúsum á vegum yfirvalda er hins vegar safnað.
Þann 15. september voru alls 23 einstaklingar í sóttvarnahúsum, fjórir í einangrun og nítján í sóttkví. Þrír Íslendingar voru í þessum hópi, en flestir, fimm talsins, voru frá Palestínu.
Fjöldi þeirra sem eru í sóttvarnahúsum hefur aukist mikið frá því svarið var tekið saman og samkvæmt frétt á vef mbl.is frá því í gær voru 60 manns í sóttvarnahúsum í Reykjavík, 46 í upprunalegu farsóttarhúsi við Rauðarárstíg og fjórtán til viðbótar í öðru húsnæði við sömu götu sem hefur verið á leigu til að þjóna þessu hlutverki.
Samkvæmt frétt mbl.is voru flestir í farsóttarhúsunum Íslendingar og stór hluti yngra fólk, sem átti erfitt með að vera heima hjá sér.