Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja: Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, mælist 40,8 prósent í nýrri könnun Zenter sem gerð var fyrir Fréttablaðið og greint er frá í blaði dagsins. Allir stjórnarflokkarnir mælast undir kjörfylgi.
Sama könnun sýnir að þrír stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir: Samfylking, Píratar og Viðreisn, mælast nú með 41,1 prósent fylgi, eða aðeins meira en sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna. Þeir mynda, ásamt Vinstri grænum, meirihluta í næst stærsta stjórnvaldi landsins, Reykjavíkurborg og hafa allir ýjað að því að þeir flokkar sem skilgreina sig sem kerfisbreytingaöfl þurfi að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar, sem fara fram eftir tæpt ár, eða 25. september 2021. Ef Vinstri grænum er bætt við þá er samanlagt fylgi þeirra flokka sem mynda meirihluta í Reykjavík 50,8 prósent.
Eina leiðin til að mynda þriggja flokka ríkisstjórn, yrði niðurstaða könnunar Zenter það sem talið yrði upp úr kjörkössunum, væri með aðkomu bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við Fréttablaðið að það væri „ekki að fara gerast“. Samstarf flokkanna gerðist bara í sjónvarpsþáttum, og vísaði þar til þáttaraðarinnar „Ráðherrann“ sem nú er til sýningar á RÚV. Logi hefur ítrekað sagt það opinberlega á undanförnum árum að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.
Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn er áfram sem áður stærsti flokkur landsins og mælist með 23,2 prósent fylgi. Vinstri græn mælast nú með 9,7 prósent fylgi, sem þýðir að flokkurinn hefur tapað langleiðina að helmingi þess fylgis sem hann fékk í kosningunum 2017, þegar 16,9 prósent kjósenda kusu hann. Framsóknarflokkurinn er sömuleiðis að mælast mjög lágt, eða með 7,9 prósent fylgi, sem yrði versta útkoma hans í sögunni yrði hún að veruleika.
Miðflokkurinn, sem varð til þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson klauf sig úr Framsóknarflokknum, mælist með sama fylgi og gamli flokkurinn, eða 7,9 prósent. Það þýðir að sitjandi stjórnarflokkar gætu ekki tekið Miðflokkinn, sem er deilir mörgum kerfisvarnaráherslum með þeim, með í ríkisstjórn sem væri með meirihluta kjósenda á bakvið sig.
Samfylkingin mælist næst stærst
Samfylkingin mælist með 17,2 prósent í könnun Zenter sem myndi gera hana að næst stærsta flokki landsins. Píratar mælast með 13,9 prósent og yrðu þriðji stærsti flokkurinn miðað við þá niðurstöðu. Viðreisn hefur nokkuð stöðugt, í könnunum Zenter og þeim sem önnur könnunarfyrirtæki gera, mælst með í kringum tíu prósent fylgi síðustu mánuði. Á því er engin breyting í þessari könnun.
Samtals myndu þessir þrír flokkar bæta við sig 13,1 prósentustigi frá síðustu þingkosningum ef niðurstaða könnunar Zenter yrði að veruleika. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír myndu á sama tíma tapa 12,1 prósentustigi frá því að kosið var síðast. Þorri þess taps yrði hjá Vinstri grænum, eða um 60 prósent.
Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og svartími var frá 23. til 28. september. Í hópnum voru 2.500 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu. Svarendur voru 1.281 eða 51 prósent.
Kannanir ekki að sýna sömu stöðu
Niðurstaða könnunar Zenter er ansi ólík því sem síðasta könnun MMR sýndi. Þar mældist til að mynda fylgi Sjálfstæðisflokks 25,6 prósent en Samfylkingar 12,8 prósent.
Miðflokkurinn mældist þar í kjörfylgi, eða 10,8 prósent, en Vinstri græn fengu sína verstu mælingu frá því fyrir Panamaskjölin vorið 2016 í könnunum MMR og mældust með 8,5 prósent fylgi.
Ríkisstjórnarflokkarnir voru með samanlagt 42,4 prósent í könnun MMR en samanlagt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar var 37,2 prósent.
Í síðustu könnun Gallup, sem birt var í byrjun september, mældust Vinstri græn með 12,6 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn naut stuðnings 22,8 prósent kjósenda og Framsóknarflokkurinn var með 7,9 prósent fylgi. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja samkvæmt því var 43,3 prósent.
samanlagt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar mældist þá 39 prósent.