„Álagið hefur aukist mjög harkalega síðustu tíu daga um svipað leyti og við erum að sjá faraldurinn blossa upp í meira mæli en fólk vonaðist til,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Róðurinn hefði þyngst nokkuð hratt og taka þyrfti í bremsuna. Þrettán liggja nú á Landspítala vegna COVID-19, þar af tveir á gjörgæsludeild. Tveir hafa því lagst inn á síðustu klukkustundum „svo þetta er ákveðin holskefla“.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði frá því á fundi dagsins að hann hefði beðið stjórnendur Landspítalans að svara þeirri spurningu hvort að sjúkrahúsið gæti sinnt öllum COVID-sjúkum miðað við svörtustu spár. Hann greindi ekki frá því hver sú spá væri en benti á að vísindafólk við Háskóla Íslands, sem gerir spálíkanið sem stuðst er við, muni fljótlega birta sviðsmyndir um það álag sem gæti orðið á sjúkrahúsum.
Páll rakti styrkleika spítalans og sagði þá fjölmarga. Þar væri komið á gott verklag, til staðar væri gríðarlega öflugt starfsfólk sem byggi yfir nýrri og vaxandi þekkingu á því hvernig best er að sinna fólki með COVID-veikindi. Hlífðarbúnaður, lyf og öndunarvélar væru til staðar. En hins vegar væru áskoranir það einnig. „Til að Landspítalinn geti sinnt sínum sérhæfðu verkefnum þarf hann að geta útskrifað fólk sem ekki þarf lengur á þjónustu hans að halda hratt og vel,“ sagði Páll.
Í vetur hafi viljað svo vel til að nýtt hjúkrunarheimili var opnað áður en holskefla innlagna vegna COVID skall á. „Um slíkt er ekki að ræða nú,“ sagði hann. Unnið er nú að því með „miklum hraði“ að leysa þennan fráflæðisvanda undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins og með ráðgjöf landlæknisembættisins. Páll hefur fulla trú á að það takist.
„Hin áskorunin fellst í mönnun,“ sagði forstjórinn og tók sérstaklega fram mönnun á COVID-göngudeildinni og á gjörgæslu. „Ég vil koma með ákall til heilbrigðisstarfsfólks: Mál hafa þróast mjög hratt. Bylgjan núna er ekki minni en í vetur. Við þurfum alla á dekk.“
Ekki tímabært að herða
Um 560 eru nú með COVID-19 hér á landi og hefur veiran náð að stinga sér niður víða um landið. Þórólfur sagði það þó sitt mat að ekki væri tímabært að svo stöddu að herða aðgerðir. Tilhneigingin væri í þá átt að nýgreiningum væri að fækka þó að það gengi ekki eins hratt og vonast var til. Hvort herða beri aðgerðir eður ei er í sífelldri endurskoðun að hans sögn og daglega ræðir hann við margt fólk um stöðuna og að sitt sýndist hverjum. Hann liti ekki endilega svo á að verið væri að beita hann þrýstingi en hann hlustaði á margar raddir og gerði svo upp hug sinn. Það er tvennt sem hann horfir helst til þegar meta á hvort herða skuli aðgerðir: Hver þróun faraldursins er og hvernig heilbrigðiskerfið sé í stakk búið að takast á við álagið.
„Faraldurinn hefur verið stöðugur og í hægri niðursveiflu ef eitthvað er,“ sagði hann. „Hann er ekki veldisvexti og á meðan svo er er ekki ástæða til harðari samfélagslegra aðgerða.“
Ýmsar afleiðingar, bæði heilsufarslegar og félagslegar, gætu fylgt hörðum aðgerðum. „Þetta snýst ekki bara um veiruna sjálfa,“ sagði hann. „Erum við að gera rétt eða rangt? Það verður bara að koma í ljós.“
Mallaði en tók svo á rás
Þórólfur hefur oftsinnis sagt að það taki tvær vikur að sjá árangur af hertari aðgerðum. Á fundi dagsins sagði hann svo að það væri alls ekkert víst að sambærilegar aðgerðir og gripið var til í vetur myndu skila sama árangri og náðist þá. Bylgjurnar væru um margt ólíkar, t.d. að veiran hefði fyrst mallað í einhvern tíma en væri núna búin að taka á rás. Þó væri faraldurinn ekki í veldisvexti.
En hins vegar þarf að mati sóttvarnalæknis að skoða málin gaumgæfilega og ef kúrfan fer „í ranga átt“ þarf að endurskoða málin með stjórnvöldum og þá hvort að grípa beri til harðari aðgerða. Það væri hins vegar erfitt fyrir alla – allt samfélagið. „Það er líklegt að við munum þurfa að viðhafa þessar aðgerðir næstu mánuði því það er ljóst að þessi veira er ekkert að fara.“
Hópsmit eða bylgjur væru framtíðin sem við stæðum frammi fyrir. „Við eigum eftir að fá fleiri bylgjur, alveg örugglega, þangað til við fáum bóluefni eða eitthvað annað gerist sem mun hægja á og virkilega slökkva á þessari veiru. Ætlum við að gera það í hvert skipti sem við fáum einhvern topp að slökkva á öllu hérna innanlands,“ spurði hann og hélt svo áfram: „Ég játa það að ég er alveg á nippinu [að grípa til harðari aðgerða] og er búinn að vera þar lengi og það þarf ekki mikið út af að bregða svo ég taki upp blaðið og sendi það áfram.“