Þrettán sjúklingar með COVID-19 liggja nú á Landspítalanum og hefur þeim því fjölgað um þrjá síðustu klukkustundirnar. Tveir þeirra eru á gjörgæslu og báðir í öndunarvél.
Í gær greindust 36 einstaklingar með sjúkdóminn og hafa 576 greinst með veiruna frá því að þriðja bylgja faraldursins hófst þann 11. september.
Níu af nítján skurðstofum Landspítalans eru lokaðar vegna vaxandi þunga í starfsemi spítalans af völdum faraldursins. Landspítali er á hættustigi og unnið er að ýmsum leiðum til að auðvelda breytingar á starfseminni til að mæta aukinni þörf fyrir innlagnir.
Í tilkynningu á vef Landspítalans í dag segir að smitsjúkdómadeild A7 í Fossvegi sé nú aftur orðin farsóttareining líkt og í fyrstu bylgju faraldursins í vetur og unnið er að skipulagi á lungnadeild svo unnt verði að taka við fleiri COVID-19 sjúklingum þar.
Grímuskylda hefur verið tekin upp á sjúkrahúsinu og ber öllum starfsmönnum og gestum að bera ávallt grímur sem spítalinn útvegar.
Í dag eru 572 sjúklingar í eftirliti hjá COVID-19 göngudeildinni. 95 starfsmenn Landspítalans eru í sóttkví og 37 í einangrun.