Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur greinst með kórónuveiruna en hann greindi frá þessu á Twitter rétt í þessu. Fyrr í nótt hafði hann opinberað það að einn ráðgjafi hans hefði greinst jákvæður fyrir veirunni og að Trump og eiginkona hans, Melania Trump, hefðu farið í skimun í kjölfarið.
Tonight, @FLOTUS and I tested positive for COVID-19. We will begin our quarantine and recovery process immediately. We will get through this TOGETHER!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 2, 2020
Í tísti forsetans segir kemur fram að þau muni hefja einangrun hið snarasta. „Við munum komast í gegnum þetta saman,“ skrifar hann.
Ekki liggur ljóst fyrir hvort eða hvernig þessar vendingar muni hafa áhrif á næstu kappræður milli Trumps og Joe Bidens, forsetaefnis demókrata, sem fyrirhugaðar eru 15. október næstkomandi í Miami í Flórída en fyrstu kappræðurnar fóru fram fyrr í þessari viku.
Í minnisblaði til fjölmiðla frá lækni forsetans, Sean Conley, kemur fram að forsetahjónin séu enn við góða heilsu. Hann segist búast við því að forsetinn haldi áfram störfum sínum án truflana meðan hann er að ná sér.
Alls hafa meira en 207 þúsund manns látist af völdum veirunnar í Bandaríkjunum og efnahagsleg áhrif útbreiðslu hennar hafa verið gríðarleg þar, líkt og annarsstaðar. Trump fékk niðurstöðuna um að hann væri með COVID-19, eins og áður segir, í kjölfar þess að Hope Hicks, einn nánasti ráðgjafi hans, hafði sýkst af henni.
Hefur mánuðum saman talað niður alvarleika faraldursins
Í frétt The New York Times af málinu segir að greining Trump skapi óvissu um forystu landsins og stigmagni þá krísu sem standi yfir í landinu vegna faraldursins.
Trump hefur mánuðum saman talað niður alvarleika faraldursins sem nú geisar um heim allan. Á hljóðupptökum sem blaðamaðurinn Bob Woodward gerði af samtölum sínum við Trump við vinnslu bókarinnar „Rage“, og hann hefur birt opinberlega, kom fram að forsetinn hefði vitað frá því í upphafi faraldursins hversu hættuleg kóronuveiran væri og að hún væri bráðsmitandi. Á upptökunni, sem er frá því í mars, sagðist Trump hins vegar hafa meðvitað talað niður þá hættu vegna þess að hann vildi ekki valda örvæntingu hjá bandarísku þjóðinni. Á meðal þess sem Trump sagði opinberlega í vor var að veiran myndi hverfa þegar hlýna myndi í veðri.
Í kvöldverði sem Trump var staddur í í gær var hann á svipuðum nótum og sagði að endalok faraldursins væri í augsýn.
Í frétt The New York Times segir að aðstoðarmenn forsetans sem rætt var við hafi ekki getað sagt hvort hvort hann væri með einhver veikindaeinkenni, en að fólk sem starfi í Hvíta húsinu hafi tekið eftir því að rödd Trump hafi hljómað hás í gær.