Um miðnætti verður neyðarstig almannavarna virkjað vegna fjölgunar nýrra smita af kórónuveirunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem almannavarnanefnd sendi á fjölmiðla fyrr í dag.
Í tilkynningunni segir að mikil fjölgun smita undanfarna daga auki líkur á veldisvexti, en mikil aukning hefur verið í nýjum smitum sem greind eru hjá fólki utan sóttkvíar. Því hafi verið ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna á öllu landinu, meðal annars á grunni þess að sýkingin sé til staðar í öllum landshlutum.
Ríkislögreglustjóri bendir þó á að virkjun neyðarstigs hafi ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig, sem varað hefur frá 25. maí. Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafi undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða og því hafi ýmsar ráðstafanir sem neyðarstig kveði á um þegar hafa verið gerðar.
Sóttvarnarlæknir beinnir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og þá sem eru eldri, að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu. Mjög áríðandi sé að fólk fylgi leiðbeiningum um einstaklingsbundnar smitvarnir, virði sóttkví og fylgi gildandi samkomutakmörkunum.