Vinnustaðir, samkomur vina og fjölskyldna, krár og líkamsræktarstöðvar eru þeir staðir og aðstæður þar sem fólk er helst að smitast af kórónuveirunni þessa dagana. „Faraldurinn er í vexti,“ segir sóttvarnalæknir og að yfirálag gæti orðið á heilbrigðiskerfið ef ekkert verður að gert. Engin merki eru um að veiran sé veikari nú en áður.
670 eru nú með COVID-19 og í einangrun. Fimmtán eru á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæsludeild. Í gær greindust 59 ný smit en meirihlutinn var í sóttkví við greiningu. Fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa er nú 156,3.
„Faraldurinn er áfram í vexti,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Stundum virðist hann vera að fara í veldisvöxt, sagði hann.
Hópar sem hafa verið að smitast síðustu daga hafa gert það á vinnustöðum, innan fjölskyldna, í vinahópum, á líkamsræktarstöðvum og krám. Þá hefur ekki tekist að rekja öll smit. „Þetta eru upplýsingar sem við höfum notað til að ákveða þær takmarkanir sem hefur verið ráðist í,“ sagði Þórólfur.
2.980 manns hafa frá upphafi faraldursins greinst með COVID-19 hér á landi. Þann 18. september fjölgaði greindum smitum snögglega og voru þann daginn 75. Frá þeim tíma hafa þau verið á bilinu 20-61. Þriðja bylgja faraldursins hófst að mati vísindafólks við Háskóla Íslands þann 11. september. Um það leyti kom upp hópsmit á vínveitingastöðum í miðborg Reykjavíkur. Nýtt afbrigði veirunnar var þar á ferð sem rakið er til tveggja franskra ferðamanna sem komu hingað til lands í ágúst. Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun að loka börum á höfuðborgarsvæðinu í nokkra daga. Nú hefur börum aftur verið lokað en um allt land og gilda þær hertu aðgerðir í tvær vikur.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði sem fer fyrir rannsóknarteymi Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Kjarnann í síðustu viku að þriðja bylgjan gæti mögulega staðið í fimm vikur í viðbót og að smitfjöldinn í heildina gæti orðið hár. Hann sagði í viðtali við RÚV í morgun að smitstuðullinn, sem segir til um hversu marga hver og einn smitar, sé nú komin yfir 2.
Hertar takmarkanir á samkomum, m.a. skólahaldi, tóku gildi á miðnætti. Meginreglan er að ekki mega fleiri en tuttugu koma saman en undanþágur frá hámarksfjölda eru nokkrar.
Húsnæði líkamsræktarstöðva skulu vera lokuð og krár, skemmti- og spilastaðir eru einnig lokaðir. Gestir á sundstöðum mega að hámarki vera 50% prósent af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi. Fjarlægðarmörk eru áfram einn metri og við aðstæður þar sem slíkt er ekki mögulegt er skylt að nota grímur.
Mikið álag er nú á Landspítalanum vegna COVID-19 og annarra sjúkdóma. Smit hafa komið upp á tveimur hjúkrunarheimilum, á Eir og Hrafnistu.
Sagði Þórólfur að ýmis „rauð flögg“ væru uppi og „við gætum farið að sjá hér alvarlegri faraldur ef ekki verður gripið inn í.“
Aðgerðirnar núna eru harðari en þær hafa verið frá því að fyrsta bylgjan var kveðin niður. Gripið var til staðbundinna aðgerða í september, börum á höfuðborgarsvæðinu var lokað, og var vonast til þess að smitum myndi fækka. „Það hefur því miður ekki gerst að miklu leyti og því ekki annað í stöðunni að grípa til hertari aðgerða og takmarkana,“ sagði Þórólfur.
Sóttvarnalæknir segir að „eðlilega“ hafi komið gagnrýni á aðgerðirnar, sumir vilji að þær séu harðari og aðrir að þær séu vægari. En á endanum þurfi að taka ákvörðun og nú hafi ríkisstjórnin gert það.
Meðal þess sem hefur verið gagnrýnt er að aðgerðirnar nái til alls landsins þó að langflest smitin séu að greinast á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur benti á að veiran væri vissulega að greinast úti á landi – hún hefði þegar greinst í öllum landshlutum. Hann telji ekki vænlegt til árangurs að beita mismunandi aðgerðum á þessum tímapunkti. Þá gæti hafist eltingaleikur við faraldurinn og töluvert lengri tíma en ella. „Þessi nálgun, að láta aðgerðir gilda á öllu landinu, þá getum við kveðið faraldurinn niður eins fljótt og auðið er. Svo hægt sé að aflétta aðgerðum fljótt.“
Þórólfur segir faraldurinn nú öðruvísi en í vetur. Hann er útbreiddari. Hann biðlar til landsmanna að standa saman um þessar aðgerðir. Það skipti mestu. „Þannig náum við árangri og þannig mun okkur takast að kveða þennan faraldur niður.“
Alma Möller landlæknir talaði um hina svokölluðu farsóttarþreytu sem margir væru að finna fyrir. Hún sagði ekki hægt að setja á takmarkanir sem allir eru sáttir við. „Þrautseigja og þolinmæli er það sem öllu skiptir,“ sagði Alma. „Við höfum þegar gengið í gegnum erfiða tíma í þessum faraldri og gerðum það með glæsibrag.“
Við þurfum að reyna að hjálpast að við að stjórna farsóttinni með ábyrgri og agaðri hegðun en láta farsóttina ekki stjórna okkur, sagði landlæknir. „Stöndum áfram saman og leggjum að mörkum hvert og eitt eins og við getum.“