Landvernd og Samtök grænkera á Íslandi gagnrýna að ekki sé stigið lengra í markmiðum um samdrátt í losun frá landbúnaði á Íslandi í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. „Metnaðarleysi“ segja Samtök grænkera í ljósi þess að búast megi við miklum breytingum á neysluvenjum í framtíðinni. Bændasamtök Íslands segja landbúnað lykilinn að fæðu – og næringaröryggi Íslendinga og því megi ekki gleyma þegar komi að því að forgangsraða verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögnum þessa þriggja aðila um aðgerðaáætlunina. Á fjórða tug umsagna barst frá fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum en hér verður lögð áhersla á landbúnaðinn.
„Það er einkennilegt að svo stór losunarþáttur eins og landbúnaður eigi ekki að draga úr sinni losun, sérstaklega með tilliti til þess að ríkisstjórnin stýrir í raun landbúnaðarframleiðslu á Íslandi,“ segir m.a. í umsögn Landverndar um aðgerðaáætlunina.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði hefur haldist tiltölulega stöðug undanfarin ár og svaraði í loftslagsbókhaldi Íslands fyrir árið 2018 til um 12 prósent af heildarlosun Íslands. Grunnsviðsmyndin sem lögð er til grundvallar aðgerðum er varða landbúnað byggir á væntum breytingum á fjölda búfjár samkvæmt mati Umhverfisstofnunar auk 10 prósent fækkunar sauðfjár samkvæmt búvörusamningum við sauðfjárbændur.
Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir 5 prósent samdrætti miðað við losun viðmiðunarársins 2003 en 9 prósent samdrætti ef miðað er við losun ársins 2018. Bændasamtökin hafa sett sér umhverfisstefnu þar sem fyrsta markmiðið er stefnt skuli að kolefnishlutleysi landbúnaðarins fyrir árið 2030.
Í aðgerðaáætlun stjórnvalda er að finna markmið um að auka grænmetisframleiðslu um 25 prósent. Þetta segist Landvernd styðja heilshugar en jafnframt þurfi að stefna að samdrætti í framleiðslu á dýraafurðum.
Landvernd bendir á að breyttar neysluvenjur á komandi árum verði til þess að draga megi úr framleiðslu dýraafurða en við slíka framleiðslu losni umtalsvert magn af gróðurhúsalofttegundum. „Það er tímabært að ríkið dragi úr hvötum (niðurgreiðslum) til neyslu á afurðum með hátt kolefnisfótspor. Ástæða er til að leggja vaxandi áherslu á loftslagsvænan landbúnað eins og grænmetis- og kornrækt. Sú staðreynd að ríkið veitir framleiðslu á landbúnaðarvörum verulega styrki er tækifæri sem ber að nýta að fullu.“
Þess verði að gæta að bændur þurfi ekki að bregða búi samhliða fækkun nautgripa og sauðfjár. Leggja samtökin til að fyrirkomulagi styrkja í landbúnaði verði breytt og bændur fái greitt fyrir að búa og stunda atvinnustarfsemi á jörðum sínum óháð því hvaða afurðir þeir framleiða líkt og nú er gert. „Gott dæmi úr fortíðinni er að þegar riða kom upp í Fljótsdal fyrir hálfri öld þá fengu bændur styrki til þess að vera áfram á jörðum sínum og byrja með skógrækt sem samfélagið nýtur sannarlega góðs af í dag.“
Lausnin felst ekki í að hætta framleiðslu
Bændasamtök Íslands segja í sinni umsögn um aðgerðaáætlunina að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á allar hliðar fæðuöryggis; fæðuframboð, aðgengi að matvælum, nýtingarmöguleika sem og stöðugleika í framleiðsluferlum. „Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar forgangsraðað er í mögulegum samdráttaraðgerðum, að lausnin felst ekki í því að hætta framleiðslu ákveðinna landbúnaðarafurða heldur horfa á matvælaframleiðslu sem hringrás og uppsprettu mikilvægra afurða fyrir nýjar matvælahringrásir.“
Samtökin segja nýja aðgerð áætlunarinnar um aukna íslenska grænmetisframleiðslu mjög framsýna og þarfa. „Grænmetisneysla mun aukast á næstu árum, er lykilinn að fjölbreyttu mataræði og sjálfbærni matvælahringrásarinnar og því ein af undirstöðum þess að gera landbúnaðartengdu matvælahringrásina loftslagsvæna.“
Samtök grænkera á Íslandi fagna því að uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi litið dagsins ljós en harma að sama skapi aðgerðaleysi stjórnvalda þegar kemur að landbúnaði og neyslu á dýraafurðum hér á landi.
Í skýrslunni komi fram að ungmenni á Íslandi vilji að dregið verði úr kjötneyslu og að sú áhersla eigi að endurspeglast í aðgerðaáætluninni. „Þó er aðeins að finna eina aðgerð sem snýr að því að draga úr kjötneyslu og hún er veikt orðuð,“ benda samtökin á. Losun frá landbúnaði sé „gífurlega mikil“ en aðgerðir er snerta landbúnað séu þær metnaðarlausustu í nýju aðgerðaáætluninni. „Það er sannarlega rými til þess að gera betur.“
Í umsögn samtakanna er því velt upp hvort Íslendingar séu hræddir við að ræða það að kjötneysla sé óumhverfisvæn og minna jafnframt á að landlæknir hafi m.a. sagt að landsmenn borði of mikið kjöt, „en þó er eins og enginn vilji raunverulega hvetja þá til þess að minnka neysluna“.
Samtökunum finnst stjórnvöld eiga að vera til fyrirmyndar þegar kemur að loftslagsvænu mataræði. „Hvers vegna er ekki boðið upp á grænkerafæði í öllum opinberum stofnunum og matarspor Eflu eða sambærilegur kolefnisreiknir settur upp í mötuneytunum? Við fögnum því að stjórnvöld ætli að gera innkaup vistvænni en fram kemur í áætluninni að „stefna ætti að því að halda neyslu á rauðu kjöti í hófi“ en þetta orðalag þykir okkur helst til veikt og óljóst. Við viljum gjarnan fá að fylgjast með þeirri framkvæmd og hvernig standa á að henni. Við viljum þó sjá stjórnvöld stíga ekki bara skrefinu lengra, heldur 100 skrefum lengra.“