„Við höfum ekki lent í því að fólk sé beinlínis að reyna að leiða okkur á rangan veg heldur frekar það að það gefi ekki allar upplýsingar,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, um áskoranir sem upp hafa komið við smitrakningu að undanförnu. Hann segir umræðu um þessi mál um helgina hafa orðið til þess að fólk hefur haft samband, leiðrétt og bætt við upplýsingum sem það hafði áður gefið smitrakningarteyminu. „Ég held að menn hafi áttað sig á mikilvægi þess að taka þátt í þessu verkefni og ég hef ekki áhyggjur af að þetta verði vandamál héðan í frá.“
Víðir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að ekki væri rétt að lögreglan hefði fengið aðgang að greiðslukortafærslum viðskiptavina á vínveitingastöðum til að rekja hópsmit. Hins vegar hafi í þremur tilfellum, þar sem margt fólk hafði komið á staði þar sem smit kom upp, var óskað eftir því að rekstraraðilar myndu kanna hvort þeir gætu og mættu gefa upp ákveðnar upplýsingar um viðskiptavini svo hægt yrði að koma til þeirra upplýsingum. Niðurstaðan var sú að sameiginleg beiðni rekstraraðila og almannavarna (sóttvarnalæknis) var send til kortafyrirtækja um að fá símanúmer fólksins sem var á stöðunum til að geta boðað það í skimun. Kortafyrirtækin skoðuðu málið og töldu sér heimilt að gera það. „Þannig að við fengum númeralista og viðkomandi aðilar fengu send boð um skimun,“ sagði Víðir. „Þannig notuðum við þessar upplýsingar og töldum það í lagi að gera það með þessum hætti.“ Engin nöfn hafi fylgt.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ítrekaði að þær upplýsingar sem út úr þessari skoðun komu eru á ábyrgð sóttvarnalæknis, lögreglan hefur þær ekki. „Þetta eru eins og aðrar upplýsingar sem safnað er vegna COVID, þær eru í gagnagrunnum sóttvarnalæknis.“
Víðir sagðist skilja mjög vel að fólki þætti óþægilegt að segja hvað það hafi verið að gera og hverja það hafi verið að hitta. „Alls konar hugsanir um það hvort við hefðum átt að gera hlutina með einhverjum öðrum hætti,“ sagði hann en bætti svo við: „Ekki vera að eyða tíma í það. Hjálpið okkur bara að vinna í þessu. Hjálpumst að við að finna þau sem gætu hugsanlega hafa smitast og tryggjum að þau geti fengið upplýsingar til að geta tekið ákvörðun um sínar varnir, sér og sínum til hagsbóta.“
Eftir þessa brýningu talaði Víðir beint til þjóðarinnar í lok fundar dagsins. „Við erum núna í stöðu sem við vildum gjarnan hafa sloppið við að vera í. Við breytum ekki því sem hefur orðið en við getum ráðið því hvert framhaldið verður.
Það mun taka okkur næstu daga að aðlaga okkur að þessum nýju reglum. Við þurfum að vera umburðarlynd þangað til það gerist.
Það er bara ein leið áfram í þessu og það er samstaða. Við þurfum að taka hvert einasta mál og hvert einasta verkefni í þessu og tækla það af skynsemi. Við þurfum að horfa á þetta í litum skrefum og taka hvert verkefni og sigra það.“
Hann fór svo yfir mikilvægi persónulegra smitvarna og hvatti alla til að gæta vel að sér hvað varðar handþvott, sótthreinsun sameiginlegra snertiflata og þar fram eftir götunum.
„Við þurfum að halda áfram að vernda viðkvæma, hringja í þá sem eru einir, gera eitthvað skemmtilegt fyrir þá sem komast ekki út. Það reynir á þol og þrautseigju núna. Ekkert er hafið yfir gagnrýni en munum heildarmarkmiðið sem er eins og við vitum að takmarka eins og við getum frekari útbreiðslu. Veiran er andstæðingurinn,“ sagði Víðir og lagði áherslu á orð sín með því að hamra með fingrum á púltið fyrir framan sig. „Hún er ekki fyrirsjáanleg og hún er ekki sanngjörn. Við hins vegar höfum sýnt að við getum ALLT þegar við stöndum saman. Við ætlum að ná þessu niður,“ sagði Víðir og hélt áfram að leggja mikla áherslu á orð sín. „Við munum vinna marga bardaga og litlir sigrar skapa mikla velgengni. Tökum einn dag í einu, hjálpumst að. Leiðbeinum, pössum upp á hvert annað og sýnum öðrum vinsemd og virðingu.
Þetta verður áfram í okkar höndum.“