„Við erum í vanda,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í færslu á Facebook í kvöld. Forsetinn hvetur landsmenn til að kynna sér allar upplýsingar um þær hertu sóttvarnaraðgerðir sem hafa verið kynntar og hvetur til samstöðu þjóðarinnar.
„Við gerðum það í vor og getum það enn. Einhugur kemur okkur öllum til góða en langmest þeim sem á því þurfa helst að halda, fólkinu sem er veikast fyrir og þeim sem sinna sjúkum. Í stritinu miðju stoðar lítt að velta vöngum yfir því hvað hefði kannski mátt gera öðruvísi, ræðum það síðar,“ segir forsetinn.
Hann hvetur alla til að fylgja tilmælum og leiðbeiningum og „verða þannig að liði í þessu ágæta samfélagi okkar.“
„Samstaða í þágu þjóðar, þrautseigja í verki. Látum þetta sannast um okkur. Við erum öll almannavarnir. Sýnum hvað í okkur býr,“ skrifar forseti Íslands.
Kæru landsmenn. Við erum í vanda. Á morgun verða varnir gegn veirunni skæðu þess vegna hertar enn frekar. Nýjar reglur...
Posted by Forseti Íslands on Tuesday, October 6, 2020
Ávarpaði óþreyjuna í samfélaginu í færslu í gær
Forsetinn skrifaði einnig um veiruna á Facebook í gær, þar sem hann ávarpaði þá óþreyju og jafnvel gremju sem má merkja víða í samfélaginu, nú þegar veiran hefur blossað upp að nýju af miklum krafti.
„Vissulega getur verið hægðarleikur fyrir þá, sem ekki þurfa að axla ábyrgð á aðgerðum, að benda á sitthvað í okkar sóttvörnum sem mætti vera öðruvísi, finna heimildir á netinu um önnur viðbrögð annars staðar og þar fram eftir götunum. Brýnast er þó að við gerum sjálf það sem í okkar valdi stendur til að halda veirunni í skefjum,“ sagði forsetinn í þeirri færslu sinni, þar sem hann sendi jafnframt öllum þeim sem sýkst hafa bestu óskir um góðan bata og færði þeim sem eru að „glíma við þennan vágest í þágu okkar allra“ stuðningskveðjur.
„Við skulum öll reyna að létta þeim verkið með því að sinna okkar eigin sóttvörnum og fara að eigin frumkvæði og hyggjuviti eftir leiðbeiningum og tilmælum sem gagnast samfélaginu í heild. Verum hluti lausnarinnar, ekki vandans,“ skrifaði Guðni þá.