Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar og Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar gagnrýna báðar þá ákvörðun heilbrigðisráðherra að víkja að hluta frá ráðleggingum sem komu fram í minnisblaði sóttvarnalæknis varðandi íþróttaiðkun, í þeirri reglugerð um hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu sem kynnt var í gærkvöldi. Gagnrýni þingmannanna kom fram í umræðum um störf þingsins á Alþingi í morgun.
Samkvæmt reglunum sem tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag er líkamrækt og íþróttastarf innandyra á höfuðborgarsvæðinu óheimilt innandyra, en íþróttir eru heimilar utandyra, þar á meðal fótbolti. Í minnisblaði sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir var hins vegar mælt með því að öllu keppnistarfi í íþróttum yrði frestað um 2 vikur. Eftir því var ekki farið hvað íþróttir utandyra varðar.
„Í stuttu máli, til þess að flækja þetta ekki frekar, er fótbolti leyfður og ekki aðrar íþróttagreinar. Munurinn er sagður vera að fótbolti er stundaður utandyra, aðrar innandyra, samt er sundið bannað – og svona mætti lengi telja. Þetta er ekki til þess fallið að efla samstöðu þjóðar sem fyrst og fremst þarf á samstöðu að halda til þess að komast í gegnum þetta,“ sagði Hanna Katrín.
Hún sagðist bíða spennt eftir því að sjá hvernig heilbrigðisráðuneytið myndi taka í óskir íþróttahreyfinga sem alla jafna stunda íþróttir sínar innanhúss, um að fá að leika íþróttir sínar utandyra.
„Það verður að vera eitthvað „system i galskapet“ (í. samræmi í vitleysunni) en ekki handahófskenndar ákvarðanir þegar þær varða hagsmuni jafn margra og við verðum að treysta því að heilbrigðisyfirvöld hafi einhverja reglu á hlutunum en séu ekki bara hlaupa á eftir þeim sem kalla hæst hverju sinni,“ sagði Hanna Katrín.
Mega leikmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu spila körfu með Njarðvík?
Helga Vala sagði að „óreiða í upplýsingum“ væri algört lykilmein í samstöðu þjóðarinnar. Hún sagði að ólíkar reglur fyrir ólík landsvæði – eða ólíkar reglur fyrir ólíkar íþróttagreinar – vektu upp tortryggni í garð þeirra aðgerða sem gripið er til.
Svörin sem líkamsræktarfrömuðir á Akureyri hefðu fengið um helgina, þegar þeir gagnrýndu að þurfa að loka hjá sér þar sem það væri lítið smit, hefðu verið þau að það dugaði lítt að loka bara á einum stað en ekki öðrum.
Hún sagði að íþróttafélög í dag væru hugsi yfir þeim skilaboðum sem borist hafa, því nú megi ekki leika innanhússíþróttir á höfuðborgarsvæðinu en þeir sem stunda slíkar í Keflavík, Borgarnesi, Njarðvík og Grindavík megi áfram stunda sínar íþróttir, „algjörlega óháð því hvar íþróttafólkið býr sem spilar með umræddum félögum.“
„Þetta fær mig til að vera aðeins hugsi um hvort við séum að lenda í upplýsingaóreiðu eða regluóreiðu og ég held að stjórnvöld verði að grípa þarna inn í og láta skynsemina taka yfir en ekki póstnúmer,“ sagði Helga Vala.