Tæplega sjö hundruð manns af þeim tæplega 800 sem eru í einangrun vegna COVID-19 búa á höfuðborgarsvæðinu. Hertar aðgerðir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag þar sem langflest smitin eru að greinast. Í fyrradag, svo dæmi sé tekið, voru 94 smit af 99 á höfuðborgarsvæðinu. Í gær greindust 87 ný smit á landinu öllu og áfram er stór hluti þeirra hjá fólki sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu. 41 sem greindist með COVID-19 í gær var ekki í sóttkví við greiningu.
Fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa er 181,6. Samtals hafa 3.172 einstaklingar greinst með COVID-19 hér á landi frá upphafi faraldursins.
Meira en 4.000 manns eru nú í sóttkví. Í gær voru tekin 2.650 sýni.
Langflestir þeirra sem eru nú með COVID-19 eru á aldrinum 18-29 ára eða 231 einstaklingur. Næstflestir eru í aldurshópnum 30-39 ára. Í yngstu aldurshópunum, frá því innan við eins árs og upp í tólf ára eru 44 nú í einangrun vegna sjúkdómsins og 34 yfir sjötugt.
Faraldurinn er nú að mörgu leyti á svipuðum slóðum og hann var í enda mars í vetur. Þá voru um 750 manns í einangrun vegna COVID-19 og smitfjöldi í kringum 100 daglega.