Þorsteinn Már Baldvinsson er tekinn aftur við sem stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi hennar um miðjan síðasta mánuð og var nýverið tilkynnt til fyrirtækjaskrár Skattsins.
Þorsteinn Már steig tímabundið til hliðar sem formaður stjórnar fyrirtækisins 18. nóvember í fyrra. Skömmu áður hafði hann líka hætt sem forstjóri Samherja. Hann settist aftur í þann stól 27. mars síðastliðinn.
Ástæður þess að Þorsteinn Már steig til hliðar voru þær að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu. Í umfjölluninni steig fram uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem sagði að öll ætluð mútubrot Samherja í landinu hefði verið framkvæmd með vitund og vilja forstjórans, Þorsteins Más.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 20. nóvember 2019 að þegar Samherji kynnti samstæðu sína erlendis þá var Síldarvinnslan kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Þetta sýndu glærukynningar sem voru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks birti vegna Samherjamálsins.
Með réttarstöðu sakbornings
Í byrjun september 2020 var greint frá því á Kjarnanum að Þorsteinn Már væri á meðal sem einstaklinga sem eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á starfsemi Samherja. Í málinu er grunur er að um mútugreiðslur hafi átt sér stað, meðal annars til erlendra opinberra starfsmanna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um peningaþvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðgunarbrot.
Hinir fimm sem kallaðir hafa verið inn til til yfirheyrslu og fengið réttarstöðu sakbornings við hana eru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og Jóhannes Stefánsson.
Auk héraðssaksóknara hefur embætti skattrannsóknarstjóra haft mál tengd Samherja til rannsóknar hérlendis. Þá eru þau einnig til rannsóknar í Namibíu og Noregi.
Stærsta sjávarútvegsblokk Íslands
Samherjasamstæðan er sú sem heldur samanlagt á mestum kvóta á Íslandi.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Síldarvinnslan er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er með 2,3 prósent af heildarkvóta til umráða.
Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta. Samanlagt er þessi blokk að minnsta kosti 17,1 prósent aflahlutdeild.
Á annað hundrað milljarðar í eigið fé
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að Samherji hf., annar helmingur Samherjasamstæðunnar, hefði hagnaðst um 64,8 milljónir evra, um níu milljarða króna á meðalgengi ársins 2019, í fyrra. Það er mjög svipaður hagnaður og var af starfseminni árið 2018, þegar hagnaðurinn var 63,7 milljónir evra. Um er að ræða þann hluta sem heldur utan um þorra innlendrar starfsemi Samherjasamstæðunnar og starfsemi hennar í Færeyjum.
Stærsti eigandi Samherja hf. í dag er félagið K&B ehf., sem er í 2,1 prósent eigu Þorsteins Más, forstjóra Samherja, 49 prósent eigu Baldvins Þorsteinssonar, sonar hans, og 48,9 prósent eigu Kötlu Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Más. Það á 43,1 prósent í félaginu. Þar á eftir kemur Kristján Vilhelmsson með 28,3 prósent hluti. Þar á eftir kemur félagið Bliki ehf. með 11,9 prósent hlut. FramInvest Sp/f er skráð fyrir 27,5 prósenta hlut í Blika. Það félag er skráð í Færeyjum. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi þess félags.
Eigið fé Samherja hf. er 451,9 milljónir evra, tæplega 63 milljarðar króna.
Samherji Holding, hinn helmingur samstæðunnar, hefur ekki skilað inn ársreikningi. Samherja-samstæðan átti eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok árs 2018.