Þóknanatekjur sjóðstýringarfyrirtækisins GAMMA Capital Management voru 575 milljónir króna í fyrra. Þær drógust verulega saman á milli ára, enda voru slíkar tekjur 1,3 milljarðar króna árið 2013. Ef miðað er við stöðu mála árið 2017, þegar þóknanatekjur voru rúmlega tveir milljarðar króna, blasir við það þær voru um fjórðungur af því sem þær voru þá á síðasta ári.
Þetta má lesa út úr ársreikningi GAMMA sem skilað var til ársreikningaskrár í síðasta mánuði. Alls nam tap GAMMA fyrir tekjuskatt 379 milljónum króna á árinu 2019. Meðferð skattgreiðslna dró úr því tapi um 63 milljónir króna og endanlegt tap á árinu var því 316 milljónir króna. Samtals tapaði GAMMA 584 milljónum króna á árunum 2018 og 2019. Þetta eru einu árin frá árinu 2009 sem tap varð á rekstri GAMMA, sem er ekki lengur til í þeirri mynd sem fyrirtækið var lengst af.
Þrátt fyrir umtalsvert tekjutap í fyrra – heildartekjur helminguðust, hreinar rekstrartekjur lækkuðu um 60 prósent og þóknanatekjur um 55 prósent – lækkaði rekstrarkostnaður einungis um tólf prósent. Laun og launatengd gjöld voru 454 milljónir króna í fyrra og annar rekstrarkostnaður, sem er ekki sérstaklega útskýrður í ársreikningunum, var 434 milljónir króna og jókst um 104 milljónir króna milli ára.
Kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda var alls um 90 prósent af hreinum rekstrartekjum GAMMA í fyrra og öll rekstrargjöld voru um 380 milljónum krónum hærri en hreinar rekstrartekjur. Til samanburðar voru laun og launatengd gjöld um helmingur af hreinum rekstrartekjum á árinu 2018 og allur rekstrarkostnaður var 280 milljónum krónum lægri en hreinu rekstrartekjurnar.
Kostnaður vegna forstjóra jókst
Mestu munaði um launagreiðslur til Valdimars Ármann, sem lét af störfum sem forstjóri GAMMA í september 2019. Alls fékk hann samtals greiddar 51,3 milljónir króna í laun og launatengd gjöld í fyrra, en innifalið í þeirri tölu er kostnaður við starfslok hans. Ári áður námu heildarlaun hans 41,6 milljónum króna og því jókst kostnaðurinn vegna hans um tæpar tíu milljónir króna á milli ára.
Máni Atlason, sem tók við starfi Valdimars í lok september 2019, fékk alls greiddar 8,4 milljónir króna í laun fyrir rúmlega þriggja mánaða starf.
Samanlagður launakostnaður vegna forstjóra/framkvæmdastjóra GAMMA jókst því um tæp 44 prósent á árinu 2019 þrátt fyrir að hreinar rekstrartekjur hafi dregist saman um 60 prósent milli ára, eða um 780 milljónir króna.
Fréttablaðið greindi frá því í lok september að stjórn GAMMA hefði tilkynnt þeim starfsmönnum sem áttu rétt á þessum greiðslum að þær myndu ekki greiðast út. Auk þess hefur stjórnin farið fram á að tveir starfsmenn, Valdimar Ármann og Ingvi Hrafn Óskarsson, sem var sjóðstjóri hjá GAMMA, endurgreiði alls um tólf milljónir króna vegna kaupauka sem þegar höfðu verið greiddir til þeirra.
Verðmiðinn lækkar og lækkar
GAMMA var mikið í sviðsljósinu á síðustu tveimur árum. Í júní 2018 barst tilkynning til Kauphallar Íslands um að viljayfirlýsing hefði verið undirrituð um kaup Kviku banka á öllu hlutafé í GAMMA. Kaupverðið átti að vera tæplega 3,8 milljarðar króna, og greiðast með annars vegar reiðufé og hins vegar hlutafé í Kviku.
Þegar tilkynnt var að saman hefði náðst um kaup Kviku á GAMMA hafði verðmiðinn lækkað verulega. Nú var samanlagt verð sagt 2,4 milljarðar króna en ekkert átti lengur að greiðast með hlutafé í Kviku. Eigendur GAMMA áttu að fá 839 milljónir króna í reiðufé en restina í hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA og í formi árangurstengdra greiðslna sem áttu að „greiðast þegar langtímakröfur á sjóði GAMMA innheimtast.“
Í byrjun september 2019 var svo greint frá því að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að sameina alla eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðunnar í eitt dótturfélag. GAMMA yrði þá ekki lengur til sem sjálfstæð eining þegar fram liðu stundir. Samhliða þeirri tilkynningu var greint frá því að Valdimar Ármann myndi hætta sem forstjóri GAMMA.
Í lok þess mánaðar var greint frá því, með tilkynningu til Kauphallar, að tveir sjóðir í stýringu GAMMA væru í mun verra standi en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða sjóði í efsta lagi áhættu sem gæti mögulega skilað mikilli ávöxtun, og fjárfestar í þeim áttu að vita að þeir væru að taka þátt í verkefnum sem gætu súrnað. Það kom hins vegar flestum í opna skjöldu þegar annar sjóðurinn var færður niður að nánast öllu leyti, og hinn að miklu leyti.
Á meðal þeirra sem töpuðu töluverðum fjárhæðum í sjóðunum voru nokkrir lífeyrissjóðir.
Í febrúar síðastliðnum var greint frá því að ætlað kaupverð Kviku á GAMMA væri komið niður í 2,1 milljarð króna.