Eigið fé Torgs ehf., sem gefur út Fréttablaðið og tengda miðla, nálægt helmingaðist á síðasta ári. Það var 502 milljónir króna í árslok 2018 en tæplega 290 milljónir króna um síðustu áramót.
Tap félagsins á síðasta ári var 212 milljónir króna en þar var búið að reikna með 50 milljóna króna styrk út ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla. Þeir styrkir voru aldrei greiddir út, enda frumvarp um þá ekki samþykkt. Hins vegar voru greiddar út sérstakir neyðarstyrkir vegna kórónuveirufaraldursins sem á endanum skiluðu Torgi 64 milljónum króna.
Sala á auglýsingum, sem er uppistaða tekna Torgs, dróst saman um 318 milljónir króna á árinu 2019, eða um 12,3 prósent, og var 2.257 milljónir króna. Torg hafi skilað 39 milljón króna hagnaði á árinu 2018.
Skuldir félagsins jukust hins vegar úr 765 milljónum króna í 1.186 milljónir króna, eða um 55 prósent milli ára. Þar munar mestu um að nýjar skuldir við lánastofnanir en langtímaskuldir við slíkar voru 327 milljónir króna í lok síðasta árs.
Eignir Torgs eru að uppistöðu viðskiptavild upp á 752 milljónir króna og áhöld, tæki eða innréttingar sem metin eru á 256 milljónir króna. Í ársreikningi félagsins kemur fram að það hafi keypt tölvubúnað, bifreiðar eða vélar á síðasta ári fyrir 172 milljónir króna.
Meðalfjöldi starfa hjá Torgi var 81 á síðasta ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 sem skilað var inn til ársreikningarskrár fyrir helgi.
Ekki unnt að leggja mat á áhrif COVID-19
Í ársreikningnum er líka fjallað sérstaklega um atburði eftir reikningsskiladag.
Í skýringu á þeim lið segir: „COVID-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum efnahagslífsins, bæði hérlendis og erlendis. Veruleg óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif faraldursins, hve lengi hann mun vara og hver áhrifin verða eftir að honum lýkur. Það er mat stjórnenda að ekki sé unnt að leggja mat á áhrif þessa á félagið á þessum tímapunkti. Félagið hefur brugðist við þessum aðstæðum með kostnaðaraðhaldi eins og með því að hætta útgáfu Fréttablaðsins á mánudögum og gert áætlanir sem miða að því að mæta ætluðum samdrætti og hrint þeim í framkvæmd.“
Tekjufærðu styrki sem átti eftir að greiða út
Torg tekjufærði 50 milljónir króna til viðbótar við sölutekjur sínar á síðasta ári sem „aðrar tekjur“. Í skýringum sem fylgja með ársreikningi Torgs kemur fram að þar sé um að ræða fyrirhugaða styrki til einkarekinna fjölmiðla vegna rekstrarársins 2019, í samræmi við frumvarp sem Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, lagði fram á síðasta ári. Torg áætlaði að fyrirtækið myndi fá hámarksstyrk samkvæmt frumvarpinu, en samkvæmt því gat ekkert eitt fjölmiðlafyrirtæki fengið meira en 50 milljónir króna.
Frumvarp Lilju var hins vegar svæft í nefnd og náði ekki fram að ganga. Hún hyggst leggja það aftur fram í þessum mánuði samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og í nýbirtu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að 392 milljónir króna fari í styrki til einkarekinna fjölmiðla á næsta ári. Frumvarpinu hefur enn ekki verið dreift á Alþingi.
Þrátt fyrir að frumvarp ráðherrans hefði ekki fengið brautargengi á vorþingi, að mestu vegna andstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, var 400 milljónum króna útdeilt til einkarekinna fjölmiðla sem sérstökum neyðarstyrkjum til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Í þeirri útfærslu var þak á greiðslum til hvers fjölmiðils hækkað í 100 milljónir króna. Fyrir vikið skertust greiðslur sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs. Torg fékk tæplega 65 milljónir króna greiðslu úr ríkissjóði vegna þessa í september.
Keyptu fyrir tæplega 600 milljónir króna
Fréttablaðið og tengdir miðlar voru lengi vel hluti af stærstu einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum, sem var að uppistöðu í eigu Ingibjargar Pálmadóttur og stýrt af henni og eiginmanni hennar, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Árið 2017 voru ljósvakamiðlar 365 miðla, ásamt fréttavefnum Vísi.is, seldir til Sýnar. Eftir stóðu Fréttablaðið og tengdir miðlar, sem voru færðir inn í Torg ehf.
Félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, keypti helmingshlut í Torgi um mitt ár í fyrra. Kaupverðið var trúnaðarmál.
Í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans hinn helminginn.
Eignarhaldið er vistað inni í félagi sem heitir HFB-77 ehf. Helgi á 82 prósent í því en aðrir eigendur eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi, með þriggja prósenta hlut.
Í lok ágúst síðastliðins var tilkynnt að Björn Víglundsson hefði verið ráðinn forstjóri Torgs. Hann tók við starfinu af Jóhönnu Helgu Viðarsdóttur sem verið hafði forstjóri félagsins og sinnt stjórnunarhlutverki tengt miðlum þess frá árinu 2016.
Um þriðjungur les fríblaðið
Fréttablaðið, fríblað sem dreift er ókeypis í 80 þúsund eintökum á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, er flaggskip Torgs. Það kemur nú út fimm sinnum í viku. Útgáfudögum þess var fækkað um einn í apríl síðastliðnum, þegar ákveðið var að blaðið myndi ekki lengur koma út á mánudögum. Síðasta breyting á útgáfutíðni fyrir það hafði verið í janúar 2009, skömmu eftir bankahrunið, þegar Fréttablaðið hætti að koma út á sunnudögum.
Blaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent. Nú mælist lestur Fréttablaðsins 34,3 prósent.
Lesturinn hefur að mestu dregist saman hjá yngri lesendum. Vorið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna í aldurshópnum 18 til 49 ára blaðið. Nú lesa 25 prósent landsmanna undir fimmtugu það.