Ríkisstjórnir Frakklands, Bretlands og Þýskalands hafa allar tilkynnt hertar sóttvarnaraðgerðir til þess að bregðast við örri fjölgun smita af kórónuveirunni. Ólíkt fyrstu bylgju faraldursins eru takmarkanirnar svæðisbundnar og fela ekki í sér algjört útgöngubann, en veitingastöðum, börum og skemmtistöðum eru þó settar þrengri skorður.
Útgöngubann að nóttu til
Emmanuel Macron, forseti Frakklands lýsti yfir neyðarstigi í heilbrigðismálum og tilkynnti útgöngubann að nóttu til í níu frönskum borgum í sjónvarpsávarpi í gær. Samkvæmt Macron verður íbúum Parísar, Grenoble, Lille, Lyon, Aix-Marseille, Montpellier, Rouen, St. Etienne og Toulouse meinað að fara úr húsi á milli níu á kvöldin og sex á morgnana, nema þeir hafi góða ástæðu til þess.
Nýju reglurnar munu taka gildi á laugardaginn og mun gilda í að minnsta kosti fjórar vikur, samkvæmt umfjöllun Sky um málið. Í sjónvarpsávarpinu sagði forsetinn ástandið vera áhyggjuefni en að landið hefði ekki enn misst stjórn á faraldrinum.
Þriggja þrepa kerfi
Í Bretlandi voru sóttvarnaraðgerðir einnig hertar til muna í vikunni, en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þriggja þrepa kerfi til að sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar síðasta mánudag. Kerfinu er ætlað að koma reglu á staðbundnum aðgerðum milli landshluta þar sem smit hafa greinst, en með því verður hættustig hvers landshluta skilgreint á þrenna vegu eftir því hversu útbreidd kórónuveiran er í honum.
Þessa stundina er Liverpool eina borgin sem er á þriðja og efsta þrepi kerfisins, en það felur í sér lokun bara og skemmtistaða auk þess sem fólk sem býr ekki saman má ekki eiga samneyti við hvert annað innandyra.
Jonson vildi einnig setja Manchester á þriðja þrepið, en hætti við eftir að hafa mætt mikilli andstöðu frá stjórnmálaleiðtogum á svæðinu. Andy Burnham, borgarstjóri Manchester, sagði aðgerðina vera gallaða og ósanngjarna þar sem hún fól ekki í sér efnahagsstuðning til einstaklinga og fyrirtækja sem myndu missa tekjur vegna þeirra.
Í dag tilkynnti svo Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, að London, Essex og York yrðu færð yfir á annað þrep, sem felur í sér takmarkaðan opnunartíma bara og skemmtistaða auk banns á samneyti fólks sem býr ekki saman. Við tilkynningu þeirra í breska þinginu hrósaði hann Lundúnarbúum sérstaklega fyrir að hafa staðið sig vel í fyrstu bylgju faraldursins og sagði alla þurfa að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að koma stjórn á útbreiðslu veirunnar aftur. Nýju reglurnar munu taka gildi á miðnætti aðfararnótt laugardags.
Ungir fresti veislum
Þýska ríkisstjórnin tilkynnti svo í gær nýjar sóttvarnaraðgerðir, þar sem kórónuveirusmitum hefur fjölgað ört þar í landi á síðustu dögum. Aðgerðirnar fela í sér þrengri samkomutakmarkanir auk styttri opnunartíma veitingastaða og bara.
Í Þýskalandi, rétt eins og í Bretlandi, eru reglurnar svæðisbundnar og fara eftir því hversu útbreidd veiran er á hverjum stað. Grímuskylda gildir á mannmörgum stöðum þar sem sjö daga nýgengi smita er yfir 35 á hverja 100 þúsund, en á stöðum þar sem nýgengi hefur náð yfir 50 eru samkomur einnig takmarkaðar við 25 manns, auk þess sem barir og veitingastaðir þurfa að loka klukkan ellefu á kvöldin. Fjöldi þýskra borga hefur náð þessum efri mörkum, til að mynda Berlín, Frankfurt og Köln.
„Ég er sannfærð um að það sem við gerum núna muni skera úr um hvernig okkur mun farnast í þessum faraldri,“ hefur þýska blaðið Deutsche Welle eftir Angelu Merkel, kanslara þýskalands við kynningu aðgerðanna. Í því samhengi biðlaði kanslarinn sérstaklega til ungs fólks um að fresta veisluhaldi núna til þess að eiga gott líf í framtíðinni.