Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir ekki vera mikið rúm fyrir tilslakanir næstu tvær til þrjár vikurnar, en vill skýra ýmis tilmæli í minnisblaði um hertar sóttvarnaraðgerðir eftir 18. október sem hann sendir heilbrigðisráðherra í dag. Dagleg COVID-19 smit voru á svipuðu róli í gær og undanfarna daga, en samkvæmt Þórólfi er kórónuveiran í línulegum vexti.
Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis klukkan 11 í dag. Á honum fór Þórólfur yfir nýjustu tölur um dagleg smit, en 81 greindust með veiruna í gær. 26 liggja inni á spítala, þrír á gjörgæslu og tveir eru á öndunarvél.
Enn greinast smitin aðallega á höfuðborgarsvæðinu, en 90 prósent þeirra sem greindust í gær höfðu lögheimili þar. Samkvæmt Þórólfi er þó ánægjuefni að hærra hlutfall hafi greinst í sóttkví en áður, en einungis 20 prósent smitaðra voru utan sóttkvíar.
Núverandi sóttvarnaraðgerðir renna úr gildi næstkomandi sunnudag, 18. október. Þórólfur sagðist munu skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag um aðgerðir sem eiga að taka við á sunnudaginn, en að hans mati er ekki mikið rúm fyrir tilslakanir næstu tvær til þrjár vikurnar. Þó segir hann að skýra þurfi ýmis tilmæli sem hafi verið óskýr.
Samkvæmt Þórólfi er ekki búist við því að faraldurinn gangi jafnhratt niður þetta skiptið eins og hann gerði í vor, þar sem veiran sé mun útbreiddari núna en hún var þá. Þá kunni einnig að vera að það sé ekki mikil samstaða í landinu, en Þórólfur bætir þó við að hann geti fullyrt að mikill meirihluti Íslendinga fari eftir gildandi sóttvarnarreglum. Aftur á móti telur sóttvarnarlæknir að vonir til þess að uppræta veiruna eins og gert var síðasta vetur vera minni en þær voru þá.