Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í meginatriðum þær breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem kveðið verður á um í reglugerð um takmarkanir á samkomum sem tekur gildi þriðjudaginn 20. október. Breytingarnar verða að mestu þær sömu og sóttvarnalæknir leggur til í minnisblaði sínu, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
„Líklegt má telja að nokkuð lengri tíma en 1-2 vikur muni þurfa til að sjá árangur af þeim aðgerðum sem nú er verið að beita þar sem að veiran hefur náð að hreiðra um sig víða í samfélaginu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í minnisblaði sínu og bætir við að hann telji líklegt að hægt muni ganga að ná faraldrinum niður að þessu sinni þrátt fyrir þær hörðu aðgerðir sem eru í gangi.
„Að mínu mati þarf því íslenskt samfélag að búa sig undir að hér verði smit í þjóðfélaginu næstu mánuðina og líklegt að á einhverjum tímapunktum þurfi að beita hörðum aðgerðum til koma í veg fyrir stóra faraldra. Þetta ástand verður að líkindum viðvarandi þar til virkt og öruggt bóluefni verður tilbúið til notkunar sem verður líklega einhvern tíma á næsta ári,“ segir síðan í minnisblaði Þórólfs.
Hér að neðan má sjá helstu breytingar sem verða á sóttvarnaráðstöfunum frá og með þriðjudeginum 20. október. Upplýsingarnar eru settar fram með fyrirvara um mögulegar breytingar á útfærslu einstakra þátta í reglugerð sem unnið er að í heilbrigðisráðuneytinu.
Takmarkanir utan höfuðborgarsvæðisins – helstu breytingar:
- Nándarmörk milli einstaklinga verða 2 metrar.
- Skylt verður að nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra nándarmörk, m.a. í verslunum.
- Á viðburðum verður einungis heimilt að hafa 20 gesti í hólfi í hverju rými sem skulu sitja í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn.
- Engir áhorfendur mega vera á íþróttaviðburðum, hvorki innan- né utandyra.
- Íþróttaiðkun, einnig sú sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar, verður heimil, jafnt innan- og utandyra.
- Líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.
Takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu – helstu breytingar:
- Allt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri sem krefst snertingar verður óheimilt.
- Skólasund verður óheimilt.
- Íþróttaiðkun sem ekki krefst snertingar verður heimil en fjöldi þátttakenda má að hámarki vera 20 einstaklingar og 2 metra nándarmörk skulu virt. Engir áhorfendur mega vera viðstaddir.
- Æfingar og keppni í íþróttum sem krefjast snertingar verða óheimilar, innan húss og utan, jafnt hjá börnum og fullorðnum.