Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þess megi vænta að heilbrigðisráðherra muni framlengja þær aðgerðir sem hafa verið í gildi undanfarna 10 daga, þannig að þær standi næstu tvær til þrjár vikur.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu forsætisráðherra, þar sem hún segir einnig að hátt hlutfall þeirra sem voru í sóttkví er þeir greindust með COVID-19 í gær (50 af alls 67) vonandi merki um að hertar aðgerðar séu byrjaðar að skila árangri.
Ögn verður skerpt á þeim reglum sem hafa verið í gildi. Tveggja metra-reglan mun gilda um allt land og tilmælum um íþróttastarf með snertingu verður breytt í reglur og sömu reglur verða látnar gilda um íþróttir utandyra og innanhúss, samkvæmt því sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, sagði við Vísi eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Hann sagði að unnið væri að nákvæmri útfærslu aðgerðanna í ráðuneytinu í samstarfi við sóttvarnalækni og að þær ættu að liggja ljósar fyrir á morgun og taka gildi eftir helgi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði minnisblaði með tillögum sínum til heilbrigðisráðherra í gær og sagði einnig á upplýsingafundi almannavarna að það væri ekki mikið rúm fyrir tilslakanir næstu vikurnar, en þó þyrfti að skýra ýmis tilmæli sem almenningur hefur fengið betur.
Guðmundur Ingi sagði við Vísi að það væri full samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að halda hertum aðgerðum til streitu.
Í gær greindust 67 manns með kórónuveirusmit en þar af voru 50 í sóttkví. Vonandi er þetta merki um að þær hertu...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Friday, October 16, 2020