Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur tekið ákvörðun um að stefna að sölu 15,42 prósenta hlut bæjarins í HS Veitum til HSV eignarhaldsfélags slhf. á um það bil 3,5 milljarða króna.
Söluferlið hefur verið umdeilt innan og utan bæjarstjórnarinnar og samtök fólks í bæjarfélaginu eru með til skoðunar að reyna á ný að knýja fram íbúakosningu um söluna.
Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því að þessi ákvörðun hefði verið tekin af meirihlutanum og sagði frá átakafundi bæjarráðs um málið sem fram fór á mánudag, en þá var niðurstaða söluferlisins kynnt. Í dag var málið svo formlega lagt fram á bæjarráðsfundi og verður í kjölfarið lagt fyrir bæjarstjórn.
Samtök sem kalla sig Íbúalýðræði stóðu að undirskriftasöfnun í sumar og söfnuðu alls 1.593 undirskriftum fyrir því að hafnfirskir kjósendur fengju að taka afstöðu til málsins áður en lengra yrði haldið með söluferlið, sem hefur verið í umsjá Kviku banka frá því á vormánuðum.
Fjöldi undirskrifta var ansi fjarri því marki sem þarf til að knýja fram íbúakosningu um málið, en til þess þarf að fá undirskriftir frá fjórðungi þeirra sem eru á kjörskrá í bæjarfélaginu eða yfir 5 þúsund undirskriftir alls.
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, talsmaður samtakanna og ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunarinnar í sumar, segir í samtali við Kjarnann að ef svo fari að salan verði samþykkt í bæjarstjórn muni samtökin reyna að ná því marki á ný og leggja aukinn kraft í undirskrifasöfnunina.
„Ég held að okkur geti tekist að ná þessum 5.000 undirskriftum sem þarf, ég held að það sé engin spurning,“ segir Óskar, en hann segir að söfnunin í sumar hafi aðallega verið kynnt á netinu og þeir sem að henni stóðu hafi ekki verið að ganga í hús eða stoppa Hafnfirðinga á förnum vegi til þess að safna undirskriftum.
„Við náðum ekki þessum 25 prósenta þröskuldi en það var samt alveg greinilegt að það var mikil ólga í bæjarfélaginu og Hafnfirðingar voru ekki sáttir við þessa ákvörðun. Ég lít þannig á að þetta hafi þá bara verið upphitun og við lærum af reynslunni hvað gekk illa, hvað gekk vel og leggjum meiri orku í þetta,“ segir Óskar Steinn.
Telja lýðræðislegt umboð skorta
Samtökin sendu yfirlýsingu á fjölmiðla í morgun og sögðust krefjast þess að bæjarstjórnin leyfði Hafnfirðingum að kjósa um málið. Þau segja lýðræðislegt umboð skorta, þar sem einkavæðing opinberra orkuinnviða hafi ekki verið á stefnuskrá neins flokks fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018 og einnig þar sem flokkarnir sem myndi meirihluta í bæjarstjórn hafi færri atkvæði á bak við sig en minnihlutinn.
„Þessi staðreynd hlýtur að setja þá kröfu á meirihlutann að hann sýni auðmýkt og samstarfsvilja en keyri ekki umdeild mál í gegn í krafti eins manns meirihluta í bæjarstjórn,“ segir í yfirlýsingu samtakanna, sem telja málið krefjast mun meiri umræðu og samráðs við bæjarbúa en raunin hafi verið.
Ætlað að styrkja bága stöðu bæjarsjóðs
Skuldastaða Hafnarfjarðarbæjar er verri en allra hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, eins og dregið var fram í frétt Kjarnans í morgun. Skuldir A-hluta bæjarins námu yfir 1,3 milljónum króna á hvern íbúa í Hafnarfirði á síðasta ári og skuldahlutfall bæjarins, hlutfall skulda af heildareignum, var um 85 prósent.
Haft var eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar í Morgunblaðinu í dag að mat meirihlutans væri að sala á hlutnum á ásættanlegu verði myndi styrkja stöðu bæjarins verulega, auk þess að draga úr þörf á lántökum. „Það hlýtur að vera fýsilegt á þessum óvissutímum,“ sagði Rósa við Morgunblaðið.