Sýn hefur náð samkomulagi við erlenda fjárfesta um helstu skilmála í sölu og 20 ára endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Söluhagnaður Sýnar gæti numið yfir sex milljörðum króna, gangi viðskiptin eftir.
Þetta kemur fram í fjárfestatilkynningu sem Sýn sendi frá sér í morgun. Samkvæmt tilkynningunni felst þó engin skuldbinding eða trygging um að af viðskiptunum verði í umræddu samkomulagi og séu þau háð áreiðanleikakönnun og mögulegri aðkomu eftirlitsstofnanna.
Fjarskiptafélagið hyggst aðeins selja óvirkan farsímabúnað sinn, allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar. Óvirki farsímabúnaðurinn yrði áfram aðgengilegur Sýn, en félagið býst við að gera langtímaleigusamning við nýja eigendur þess.
Hefur verið til skoðunar
Kjarninn hefur áður fjallað um fyrirhugaðan aðskilnað innviðastarfsemi og þjónustustarfsemi íslenskra fjarskiptafyrirtækja. Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar sagði í síðasta árshelmingsuppgjöri félagsins að það væri til athugunar að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, sem hann teldi skila miklu fjármagni til hluthafa.
„Alþjóðlegir aðilar hafa mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja og margfaldarar í viðskiptum eru mun hærri en gerist á almennum hlutabréfamarkaði,“ er haft eftir Heiðari.
Síminn hefur einnig fengið óformlegar fyrirspurnir frá fjárfestum um möguleg kaup á innviðahluta fjarskiptafyrirtækisins, Mílu. Fyrirtækið tilkynnti einnig fyrirhugaðan flutning á farsímadreifikerfi og IP-neti til Mílu í síðasta uppgjöri. Í tilkynningu Símans til fjárfesta meðfram uppgjörinu sagði Orri Hauksson forstjóri Símans einnig að verið væri að skoða hvort aðskilja eigi fjármögnun Mílu og Símans.
Fordæmi frá öðrum Evrópulöndum
Fjarskiptafyrirtæki víða um Evrópu hafa farið í sams konar endurskipulagningar á síðustu árum. Árið 2014 skapaði tékkneski hluti fjarskiptafyrirtækisins O2 sérstakt félag fyrir innviðastarfsemina sína, en samkvæmt umfjöllun ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um málið græddu hluthafar mjög á þessum aðskilnaði.
Í fyrra lauk svo aðskilnaði innviða- og þjónustuhluta danska fjarskiptafyrirtækisins TDC, að frumkvæði nýrra fjárfesta sem komu inn í félagið. Einnig tilkynnti ítalska fjarskiptafyrirtækið Telecom Italia í byrjun septembermánaðar sölu á þriðjungi landlína fyrirtækisins til hins opinbera.