Á laugardag var undirritaður samningur um kaup útgerðarfélagsins Bergs-Hugins ehf. á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum. Við þau kaup flytjast 0,36 prósent af heildarkvóta yfirstandandi fiskveiðiárs yfir til Bergs-Hugins.
Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar, sem á Berg-Huginn að öll leyti. Þar er haft eftir Gunnþóri B. Ingvasyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að kaupin séu liður í að styrkja rekstur og útgerð þess í Vestmannaeyjum. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykkt Samkeppniseftirlitsins. Kaupverð er ekki gefið upp.
Við kaupin fer aflahlutdeild Bergs-Huginn upp í 2,7 prósent af heildarkvóta til umráða.
Er í 49,9 prósent eigu Samherja
Síldarvinnslan, eigandi Bergs-Hugins, er, beint og óbeint, í 49,9 prósent eigu Samherja. að styrkja rekstur og útgerð félagsins í Vestmannaeyjum. Lög skilgreina aðila í sjávarútvegi ekki tengda nema einn eigi meirihluta í öðrum. Því eru Samherji og Síldarvinnslan ekki skilgreind sem tengdir aðilar enda eignarhluturinn eins lítið undir mörkunum og lög heimila. Það eru mjög há mörk í samanburði við það sem tíðkast annarsstaðar hérlendis.
Í lögum um skráningu raunverulegra eigenda og í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum, samsköttunar félaga, takmörkunar á frádrætti vaxtagjalda og skattlagningar útsendra starfsmanna er til dæmis miðað við 25 prósent beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi.
Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóra Samherja, tók fyrir skemmstu aftur við stjórnarformennsku í Síldarvinnslunni. Hann hafði stigið tímabundið til hliðar sem formaður stjórnar fyrirtækisins 18. nóvember í fyrra. Skömmu áður hafði hann líka hætt sem forstjóri Samherja. Hann settist aftur í þann stól 27. mars síðastliðinn.
Ástæður þess að Þorsteinn Már steig til hliðar voru þær að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu.
Stærsta samstæðan verður stærri
Samherjasamstæðan er sú sem heldur samanlagt á mestum kvóta á Íslandi.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Síldarvinnslan er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er nú með tæplega 2,7 prósent af heildarkvóta til umráða.
Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta. Samanlagt er þessi blokk með að minnsta kosti 17,5 prósent aflahlutdeild.