Þrátt fyrir að atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi sé yfir 20 prósent, að útlendingar séu um 40 prósent allra sem eru án atvinnu og að það geisi heimsfaraldur með tilheyrandi samdrætti í ferðalögum milli landa þá hefur erlendum ríkisborgurum hérlendis fjölgað það sem af er ári.
Í lok september síðastliðins voru þeir 51.120 talsins en höfðu verið 49.500 um síðustu áramót. Frá lokum júnímánaðar og fram að síðustu mánaðamótum fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 450 og eru nú 51.120 talsins.
72 prósent þeirra búa annað hvort á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjanesbæ. Flestir búa í Reykjavík, eða 22.210 alls, en erlendir ríkisborgarar eru tæplega 17 prósent íbúa í höfuðborginni. Hlutfallið er hins vegar hæst í Reykjanesbæ þar sem tæplega 26 prósent íbúa eru erlendir. Í byrjun árs 2015 voru erlendir ríkisborgarar undir ellefu prósent af íbúum þess sveitarfélags, en fjöldi þeirra hefur rúmlega þrefaldast á örfáum árum.
Heilt yfir eru tæplega 14 prósent íbúa á Íslandi erlendir ríkisborgarar. Fyrir átta árum var það 6,5 prósent.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands.
Sagði að það væri auðvelt að „losa sig“ við erlent vinnuafl
Langflestir sem hingað hafa flutt á síðustu árum gera það vegna þess að hér hefur verið næg vinna. Þeir hafa mannað flest þau á þriðja tug þúsunda starfa sem urðu til vegna vaxtar í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Flest störfin voru í þjónustugeirum eða byggingaiðnaði.
Mörg þessara starfa hafa horfið, að minnsta kosti tímabundið, vegna kórónuveirufaraldursins. Alls voru 7.671 erlendir ríkisborgarar án atvinnu hérlendis um síðustu mánaðarmót eða um 20 prósent allra slíkra. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú rúm 41,5 prósent.
Á Þjóðarspegli Háskóla Íslands, sem fór fram í fyrrahaust, voru málefni erlends starfsfólks á Íslandi til umræðu. Á meðal þeirra sem sátu þar í pallborði var Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félags- og barnamálaráðuneytinu og fyrrverandi forstjóri Vinnumálastofnunar. Hann sagði þar að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að „losa sig“ við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Það hefði enginn beðið erlenda verkamenn um að koma til landsins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð Íslenska ríkisins að hjálpa fólkinu við að koma undir sig fótunum með nokkrum hætti.
Ekki í samræmi við stefnu
Þau ummæli voru verið gagnrýnd víða, meðal annars af borgarfulltrúanum Sabine Leskopf sem skrifaði opið bréf til félags- og barnamálaráðherra vegna þeirra þar sem færð voru rök fyrir því að ummælin væru ekki í samræmi við stefnumótun hins opinbera í málaflokknum eða gildandi Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.
Þegar Þorsteinn Víglundsson, þáverandi þingmaður Viðreisnar, gagnrýndi orð Gissurar á Alþingi í fyrra sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra að hann væri ekki í stakk búinn til að svara fyrir þessi ummæli Gissurar þar sem hann hefði ekki séð upptökur eða útprentanir af þessum pallborðsumræðum en ítrekaði að stefna stjórnvalda í málefnum innflytjenda væri algjörlega óbreytt.
Ljóst er á þeim tölum sem Hagstofan hefur birt að samdráttur í efnahagslífinu, sem er áætlaður allt að níu prósent af landsframleiðslu í ár, hefur ekki leitt til þess að erlent vinnuafl hafi farið frá landinu, líkt og Gissur ætlaði.
Fleiri aðfluttir en brottfluttir
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að Íslendingar sem búið hafa erlendis hafi í auknum mæli verið að skila sér heim á þessu ári. Alls hafa 430 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því frá lokum marsmánaðar, eða frá því að heimsfaraldur kórónuveiru skall á af fullum þunga. Það er öfug þróun við flest síðastliðin ár, þegar fleiri íslenskir ríkisborgarar hafa að jafnaði flutt frá landinu en til þess. Í fyrra fluttu til að mynda 175 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess.
Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (270), Noregi (140) og Svíþjóð (190), samtals 610 manns af 1.110.