Þann 12. nóvember næstkomandi er á dagskrá fyrirtaka vegna beiðni Sýslumannsins á Vestfjörðum um að Útgáfufélag Viljans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Félaginu er stýrt af Birni Inga Hrafnssyni en er skráð í eigu foreldra hans og faðir Björns Inga, Hrafn Björnsson, er skráður fyrirsvarsmaður miðilsins hjá Fjölmiðlanefnd. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Björn Ingi, sem er ritstjóri og eini starfsmaður Viljans, setti stöðuuppfærslu inn á Facebook í kjölfarið þar sem hann sagði að engin gjaldþrotakrafa hefði borist og að hann hafi fyrst lesið um málið í gærkvöldi. „Um er að ræða lítið útgáfufélag með litlar skuldir og einn starfsmann (Björn Ingi á Viljanum) og þegar í kvöld hefur verið farið fram á afturköllun þessarar beiðni sem gengið verður frá í vikunni. Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að átta sig á því að hart er í ári hjá fjölmiðlum og auglýsingatekjur litlar í þessu ástandi.“
Björn Ingi greindi svo frá því síðdegis á miðvikudag að krafan hefði verið afturkölluð.
Tilkynnt var um stofnun Viljans fyrir tveimur árum, í nóvember 2018. Á heimasíðu miðilsins kom þá fram að upp væru „kjöraðstæður fyrir nútímalegan og borgaralega sinnaðan vefmiðil sem hefur góða blaðamennsku að höfuðmarkmiði og veitir almenningi þá mikilvægu þjónustu að sía það markverðasta úr upplýsingaflóðinu og vera allt í senn virk fréttaveita og um leið vettvangur fyrir þjóðfélagsumræðuna og aðgangur að hagnýtum og nauðsynlegum upplýsingum.“
Fjármagna átti starfsemina með sölu auglýsinga og beinum styrkjum frá lesendum. Viljinn hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2019 en á stofnári félagsins, sem náði einungis yfir rúmlega mánaðarstarfsemi, var velta þess um 1,1 milljón króna.
Missti yfirráð yfir fjölmiðlaveldi 2017
Björn Ingi, sem er fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var lengst af helsti forsvarsmaður Pressusamstæðunnar og einn stærsti eigandi. Hann fór mikinn um árabil og sankaði að sér allskyns fjölmiðlum oft með skuldsettum yfirtökum. Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekktastir voru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Um miðjan maí voru þeir hættir við aukna fjárfestingu en áttu þó enn meirihluta hlutafjár í samstæðunni. Á sama tíma var kaupum Pressunnar á Birtingi rift og Dalurinn keypti í kjölfarið allt hlutafé þess fyrirtækis.
Í byrjun september var tilkynnt að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefði ásamt hópi fjárfesta keypt flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu. Við það missti Björn Ingi yfirráð yfir samstæðunni. Um var að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn. Verið væri að selja undan þeim eignir sem þeir ættu með réttu.
Í tilkynningu frá Birni Inga sem send var út vegna þessa sagði að kaupverðið væri „vel á sjötta hundrað milljónir króna og er greitt með reiðufé og yfirtöku skulda.“ Ekki var gerð grein fyrir því hvernig kaupin voru fjármögnuð á þeim tíma.
Árið 2017 var Björn Ingi í þriðja sæti yfir launahæstu fjölmiðlamenn landsins samkvæmt tekjublaði DV með 2,7 milljónir króna á mánuði. Pressan var tekin til gjaldþrotaskipta í desember sama ár.
Gert að greiða 80 milljónir
Eigendur Dalsins kærðu Björn Inga í kjölfarið fyrir fjársvik og sögðu hann hafa haft í hótunum við sig persónulega. Í yfirlýsingu sem Árni Harðarson, einn eigendanna, sendi frá sér í febrúar 2018 sagði að markmið þeirra hótana hafi verið að komast hjá „skoðun opinberra aðila á bókhaldi og fjárreiðum Pressunar og tengdra miðla.“
Þá sagði Árni að Björn Ingi hafi reynt að fá að greiða fyrir hlutafé í Pressunni með steikum frá veitingahúsinu Argentínu, að Björn Ingi hafi fengið persónulega greiddar 80 miljónir króna þegar hann seldi allar eignir DV og Pressunnar og að í smáskilaboðum sem hann hafi sent Árna á kjördegi í fyrra hafi Björn Ingi sagt: „Er núna að klastra saman ríkisstjórn og langar að koma á friði okkar í millum“.
Í febrúar 2020 gerði Héraðsdómur Vesturlands Birni Inga að greiða þrotabúi Pressunnar milljónirnar 80, sem hann fékk greiddar eftir að Frjáls fjölmiðlun keypti fjölmiðla úr veldi hans, vegna þess að ekkert hafi bent til þess að Pressan hafi í raun skuldað honum peninganna. Um „örlætisgjörning“ hafi verið að ræða.
Frjáls fjölmiðun hafði ekki rekstrargrundvöll
Frjáls fjölmiðlun tapaði 317,6 milljónum króna í fyrra, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Alls tapaði félagið 601,2 milljónum króna frá því að það keypti fjölmiðlanna haustið 2017 og fram að síðustu áramótum, eða 21,5 milljónum króna að meðaltali á mánuði.
Félagið var fjármagnað með vaxtalausu láni frá Novator, fjárfestingafélagi sem er að mestu í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Innborgað hlutafé á árinu 2019 var 120 milljónir króna en það hafði verið 190 milljónir króna árið áður. Alls nam hlutafé í félaginu 340,5 milljónum króna sem þýðir að um 900 milljónir króna hafa runnið inn í reksturinn í formi hlutafjár og vaxtalausra lána.
Frjálsri fjölmiðlun var svo rennt inn í Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, 1. apríl síðastliðinn. Skömmu síðar var aðkoma Novator að fjármögnun félagsins opinberuð.