Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að skila minnisblaði tillögum að breyttum sóttvarnaraðgerðum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra innan skamms.
Haft er eftir á honum á Vísi í dag að hann skoði að leggja til harðari aðgerðir af einhverju tagi og einhverja endurskoðun á fyrirkomulaginu á landamærum. Vísbendingar séu um að smit á landamærum gætu verið að berast inn í samfélagið.
Sóttvarnalæknir sagði sömuleiðis við RÚV að það væri ekkert útlit fyrir að skynsamlegt yrði að aflétta þeim aðgerðum sem eru nú í gildi. Þróunin á faraldrinum væri áhyggjuefni og „rauð flögg“ á lofti víða.
Áttatíu og sex smit greindust innanlands í gær og þar af voru 24 einstaklingar ekki í sóttkví við greiningu. Þórólfur sagði við Vísi að sá fjöldi sem væri að greinast utan sóttkvíar væri ekki að minnka mikið og það væri á meðal þess sem hann hefði áhyggjur af.
Einnig væri áhyggjuefni að það væru enn margir að greinast sem hefðu ekki tengsl við þekktar hópsýkingar, eins og þá stóru sem spratt upp í kringum Landakot. Um 120 smit hafa verið rakin þangað.
Andlát á Landspítala
Einstaklingur á níræðisaldri lést á Landspítala á síðasta sólarhring eftir að hafa smitast af COVID-19. Er fjöldi þeirra sem látist hafa eftir COVID-19 smit hér á landi því kominn upp í tólf frá því að faraldurinn hófst fyrr á árinu.
Yfir þúsund manns í einangrun
Alls eru 1.062 einstaklingar nú í einangrun vegna sjúkdómsins og í heildina eru 58 manns á sjúkrahúsi, þar af einn á gjörgæslu, samkvæmt tölum á vefnum covid.is.
Faraldurinn hefur verið í vexti í landsbyggðunum eftir að hafa verið að mestu bundinn við höfuðborgarsvæðið í upphafi hinnar svokölluðu þriðju bylgju.
Núna eru 51 í einangrun á Norðurlandi eystra, 64 á Suðurlandi, 21 á Vesturlandi og 12 á Vestfjörðum. Eini landshlutinn þar sem enginn er með virkt smit svo vitað sé er Austurland.