Sóttvarnarlæknir mælist til þess að ekki fleiri en tíu komi saman á einkaheimilum. Undanskildar er stærri fjölskyldur sem búa á sama heimili.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi heilbrigðisráðherra í gær. Ráðherrann hefur fallist á nær allar tillögur hans, m.a. um að færa fjöldatakmarkanir niður í tíu í stað tuttugu og hafa samkomutakmarkanir í faraldrinum ekki áður verið jafn strangar.
Tilefni hertra aðgerða er ríkt, að mati Þórólfs. Harðar aðgerðir hafa verið í gildi í rúmar þrjár vikur en árangur ekki verið nægilegur. Nýgengi hefur farið hækkandi og klasasýkingar sjást víða og tengjast m.a. skólum, vinnustöðum, einkasamkvæmum og líksamræktarstöðvum. Þá er Landspítalinn á neyðarstigi og dregið hefur verið úr framkvæmd valkvæðra aðgerða. Fimm farsóttarhús eru nú starfrækt og veikindi þeirra sem þar dvelja hafa farið versnandi. Einnig hefur komið upp smit í jaðarhópum, farsóttarþreyta gert vart við sig og að auki er faraldurinn í miklum vexti í Evrópu.
Hertar innanlandsaðgerðir tóku gildi 5. og 6. október. Frá þeim tíma hefur samfélagssmitum heldur farið fækkandi á landsvísu, skrifar Þórólfur í minnisblaði sínu en bendir á að hins vegar hafi bæst við tvö stór hópsmit. Annað var á frystiskipinu Júlíusi Geirmundssyni þar sem 22 greindust og hitt kom upp á Landakoti, þar sem að rúmlega 80 einstaklingar hafa greinst, ýmist starfsmenn eða sjúklingar. Smitið hefur auk þess borist út fyrir Landakot til hjúkrunarheimilis á Eyrarbakka og á Reykjalund.
„Á þessari stundu er ekki séð fyrir endann á hópsýkingunni og ekki ljóst hvort hún muni dreifa sér víðar í samfélaginu,“ skrifar Þórólfur. Innanlandssmit að frádregnum ofangreindum hópsýkingum séu hins vegar mælikvarði á virk samfélagssmit. Þessum smitum hafi fækkað en síðustu dagana hefur daglegur fjöldi verið 13-28 einstaklingar.
„Áhyggjuefni er því að með þetta mikið af samfélagslegu smiti í gangi muni á einhverju tímapunkti á næstunni brjótast út hópsýkingar og valda enn meira álagi á heilbrigðiskerfið.“
Þessa bylgju faraldursins má aðallega rekja til smita sem tengjast krám í miðbæ Reykjavíkur og til nokkurra líkamsræktarstöðva. Undanfarið má rekja smitin til hópamyndana í vinahópum, innan fjölskyldna og í skólum. Aðeins einn stofn veirunnar hefur greinst í þessari bylgju sem rekja má til einstaklings sem kom inn í landið 10. ágúst.
Þórólfur vonast til þess að þær hertu aðgerðir sem taka munu gildi á miðnætti þurfi ekki að standa lengur en í tvær vikur. Þær snúa að því að minnka sem mest samgang einstaklinga, virða nándarregluna sem mest og auka notkun á grímum.