Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands þarf að vera í sóttkví fram yfir næstu helgi, til mánudagsins 9. nóvember, vegna kórónuveirusmits sem greinst hefur hjá starfsmanni á Bessastöðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu í kvöld.
Þar segir að starfsmaðurinn sem smitast hefur af veirunni sé nær einkennalaus og að forsetinn hafi engin einkenni COVID-19. Tekið er fram í tilkynningu embættisins að Eliza Reid forsetafrú og börn þeirra hjóna þurfi ekki að vera í sóttkví.
Yfir 2.000 manns í sóttkví
Forseti Ísland bætist þar með í hóp þeirra rúmlega tvöþúsund Íslendinga sem nú eru í sóttkví eftir að hafa orðið útsett fyrir mögulegu kórónuveirusmiti. Til viðbótar eru alls 859 manns nú í einangrun á landinu öllu með virkt smit COVID-19, samkvæmt upplýsingum á vefnum covid.is.
Sjötíu og fjórir einstaklingar eru nú innlagðir á sjúkrahús vegna sjúkdómsins og hafa þeir aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Fjórir eru á gjörgæsludeild, en alls hafa 17 manns látist eftir að hafa smitast af COVID-19 síðan að kórónuveiran lét fyrst á sér kræla hér á landi í lok februar.
Þar af hafa sjö látist undanfarnar vikur, í svokallaðri þriðju bylgju faraldursins, sem nú geisar og hefur leitt til þess að stjórnvöld hafa gripið til ströngustu samkomutakmarkana í lýðveldissögunni, með það að markmiði að hægt sé að hægja á vexti faraldursins eins og hægt er.