Einungis fimm manns greindust utan sóttkvíar á landinu í gær, en alls voru smitin 25 talsins. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði ánægjulegt að sjá hve fáir voru utan sóttkvíar við greiningu, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hlutfall jákvæðra sýna fer einnig lækkandi og Þórólfur sagði góð teikn á lofti um að faraldurinn væri á niðurleið, þó lítið mætti út af bregða, ný hópsmit gætu enn blossað upp.
Þjóðin ferðist innanhúss um helgina
Þórólfur sagði að enn ætti eftir að sjást meiri árangur af þeim hertu aðgerðum sem tóku gildi á landinu öllu síðasta laugardag og skoraði á landsmenn um að halda áfram að taka þátt í aðgerðunum.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að undirtektir almennings við hertum aðgerðum hefðu verið „mjög jákvæðar“, en hann beindi þeim tilmælum til allra landsmanna í dag að halda sig heima við um helgina og „ferðast innanhúss“.
Almannavarnir hafa áhyggjur af því að fólk sé á ferðinni á milli landshluta, bæði vegna hættu á útbreiðslu smita og slysum, sem gætu sett aukið álag á heilbrigðiskerfið.
Andlát á Landspítala í gær
Um 2.800 manns hafa greinst með COVID-19 hér á landi frá 15. september. Átta hafa látist í þessari bylgju, en einn einstaklingur á tíræðisaldri andaðist á Landspítalanum í gær eftir að hafa smitast af COVID-19. Núna eru fjórir COVID-sjúklingar inniliggjandi á gjörgæsludeild Landspítalans og alls eru 71 á sjúkrahúsi vegna COVID-sýkingar.
Núna eru 762 í einangrun með virkt smit á landinu og sagði Þórólfur á fundi dagsins að hið mikla álag sem hefur verið á farsóttarhúsum sem Rauði krossinn starfrækir fari nú minnkandi.
Tilslakanir þurfi að vera hægar
Fram kom í máli Þórólfs á fundinum að sennilega yrði hægt að ráðast í tilslakanir á þeim hörðu aðgerðum sem nú eru í gildi þann 18. nóvember næstkomandi og að á næstu dögum yrði farið yfir með hvaða hætti það yrði gert. Ljóst væri af fenginni reynslu að fara þyrfti hægt í tilslakanir.
Núverandi aðgerðir gilda út 17. nóvember. Þórólfur sagðist að hefja að skoða það á næstu dögum hvernig hyggilegast væri að létta einhverjum af þeim hömlum sem nú eru í gildi í samfélaginu.