Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, hefur lýst yfir vantrausti á Fangelsismálastofnun, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, og dómsmálaráðuneytið vegna viðbragða þeirra við kórónuveirufaraldrinum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Afstaða sendi út fyrr í dag.
Í yfirlýsingu Afstöðu segir að félagið hafi unnið ýmis verk að beiðni Fangelsismálastofnunar frá því að kórónuveirufaraldurinn færðist yfir landið á sama tíma og fangelsisyfirvöld hafi sett fram fyrirheit í betrunarmálum sem ekki var staðið við. „Þetta hefur haft í för með sér óöryggi og vantraust í garð yfirvalda sem Afstaða mun ekki sefa,“ segir í yfirlýsingunni.
Einangrunin hafi áhrif á geðheilsu fanga
Þar segir einnig að að þær kvaðir sem lagðar hafi verið á fangelsi landsins í kjölfar faraldursins valdi því að fangar einangrist og það hafi haft áhrif á geðheilsu þeirra. Þá hafi samskipti fanga við ástvini verið af skornum skammti: „Einnig hafa samskipti við fjölskyldu og vini verið skorin niður þannig að jafna má við að slitin séu. Engin eðlileg samskipti hafa verið á milli fanga og ástvina eða barna frá því á vormánuðum.“
Afstaða bendir á að fangar séu viðkvæmur hópur þegar kemur að geðheilsu og félagslegri einangrun og því sé ekki nægjanlega litið til mögulegra neikvæðra áhrifa á heilsu þegar kemur að aðgerðum sem gripið hefur verið til til að draga úr hættu á COVID-19 smitum.
Tillögum Afstöðu hafnað
Félagið gagnrýnir það að tillögum þess sem fela í sér jafna ívilnun fyrir alla fanga hafi verið hafnað. Í yfirlýsingunni er ástæða höfnunarinnar sögð vera sú að fangar hefðu nú þegar „fengið nægar ívilnanir í formi einnar tölvu fyrir heilt fangelsi þar sem hægt er að tala við fjölskyldu sína, gjaldfrjáls símtöl í almannarými þar sem allir aðrir eru að hlusta og að einhverjir hefðu fengið að fara fyrr á Vernd,“ segir í yfirlýsingunni.
„Fangelsisyfirvöld hleypa sumum út í miðri afplánun en öðrum ekki, sumum hleypa þeir út á reynslulausn en öðrum ekki. Allir á sama stað í kerfinu. Sumum hentu þeir út án þess að þeir hefðu átt í nokkur hús að venda,“ segir þar enn fremur.
Í tilkynningunni er það tekið fram að samstarf Afstöðu og Fangelsismálastofnunar hafi verið gott og náið og Afstaða stutt aðgerðir stofnunarinnar, en geri það ekki lengur. Þá hvetur félagið fanga og aðstandendur þeirra til að hafa samband við Afstöðu ef viðkomandi telja að brotið hafi verið á sér með þeim aðgerðum sem gripið hafið verið til í faraldrinum.
Fangelsismálastjóri segist skilja reiði fanga og aðstandenda
„Ég gerir mér grein fyrir því að heimsóknabann í fangelsum er óæskilegt og við grípum bara til þess því það telst nauðsynlegt. Viðbragðsáætlun gerir ráð fyrir á neyðarstigi að það sé lokað fyrir heimsóknir í fangelsi,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar um yfirlýsingu Afstöðu og þá stöðu sem nú er uppi. Hann segir helsta markmið fangelsisyfirvalda vera að koma í veg fyrir að smit berist inn í fangelsin. Hægt sé að halda uppi eðlilegri starfsemi í fangelsunum á meðan þau eru laus við smit.
„Við lokuðum fyrir heimsóknir 6. mars til 4. maí, meðan veiran var í hve mestri útbreiðslu í samfélaginu og við opnuðum þá 4. maí fyrir heimsóknir náinna aðstandenda og barna. Síðan þegar veiran fór aftur að láta á sér kræla í verulegu magni í ágúst þá stöðvuðum við heimsóknir,“ segir Páll um takmarkanir á heimsóknum.
Flókið verkefni að reka fangelsi á tímum COVID-19
„Við gerum okkur grein fyrir að það er fólgin í þessu aukin einangrun og við höfum áhyggjur af þessu og við ætlum að opna fyrir heimsóknir náinna aðstandenda og barna þegar neyðarstigi hefur verið aflýst. Vonandi verður það innan skamms,“ segir Páll og bendir á að reynt hafi verið að koma til móts við fanga í ástandinu. Boðið sé upp á gjaldfrjáls símtöl, rafræna AA fundi og hugleiðslur auk þess sem þjónusta félagsráðgjafa og sálfræðinga sé veitt með rafrænum hætti. Þar að auki sé enn boðið upp á vinnu, kennslu og nám innan veggja fangelsanna eins og venja er.
Páll nefnir að komið hafi upp smit í fangelsum í löndunum í kringum okkur og þá hafi þurft að einangra alla sem í fangelsunum eru. „Við höfum sloppið við það hingað til en þetta er flókið verkefni. Við höfum misst töluverðan fjölda starfsmanna í sóttkví á tímabilum og það er mjög mikilvægt að við getum haldið órofnum rekstri,“ segir Páll.
Einn fangi verið smitaður af COVID-19
Þrátt fyrir að tekist hafi að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19 innan veggja fangelsanna hefur einum smituðum fanga verið sinnt. „Það hefur komið upp smit innan einu fangelsanna. Það var ekki vegna þess að sóttvarnir brugðust heldur fengum við upplýsingar um það frá lögreglu að það væri á leiðinni fangi á leið í gæsluvarðhald sem væri smitaður af þessari veiru. En vegna þess að við höfum ekki verið með fangelsin í 100 prósent nýtingu þá höfum við aðstöðu til þess að skilja hópana að og þessi einstaklingur var í gæsluvarðhaldi með COVID og ekki í neinum samskiptum við aðra fanga og þetta smit dreifðist ekki um fangelsin. Að öðru leyti hefur ekkert smit komið upp í fangelsunum.“
Um tillögurnar sem afstaða nefnir í yfirlýsingu sinni segir Páll lítið um þær að segja annað en að þetta séu tillögur sem þurfi lagabreytingar til að ná fram að ganga. Á síðustu árum hafi afplánun utan fangelsa hlotið aukið vægi og nú getu fangar verið allt að 16 mánuði á áfangaheimili seinni hluta afplánunar og allt að 12 mánuði undir rafrænu eftirliti, með ökklaband, á sínu eigin heimili. „Hvort það sé hægt að rýmka það frekar og hvort það sé vilji til þess er bara eitthvað sem þarf að skoða,“ segir Páll. Nú sé helsta forgangsmálið að tryggja órofinn rekstur fangelsa og „halda lífinu innan veggja fangelsanna í eins eðlilegum skorðum og hægt er.“