Jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis Pfizer og BioNTech gegn COVID-19 fóru sem stormsveipur um heiminn fyrr í dag og glæddu vonir um að brátt færi að sjá til sólar í glímunni við sjúkdóminn og útbreiðslu veirunnar sem honum veldur, SARS-CoV-2.
Að minnsta kosti 50 milljónir manna hafa smitast af veirunni á heimsvísu frá því í upphafi þessa árs og hefur vöxtur faraldursins sjaldan verið jafn hraður og um þessar mundir, ekki síst í Evrópu og í Bandaríkjunum. Alls hafa yfir 1.250.000 manns látist vegna veirunnar til þessa og sóttvarnaraðgerðir haft lamandi áhrif á mannlíf og efnahagslíf víða.
Flugfélög upp, fjarvinnulausnir niður
Fjárfestar um heim allan tóku tíðindunum fagnandi og mikil bjartsýni virtist grípa um sig í kauphöllum.
Hér á Íslandi skaust verð á hlutabréfum í Icelandair Group upp um tæplega fjórðung í um 260 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfa í félaginu upp fyrir útboðsgengið 1 í fyrsta sinn í rúman mánuð. Einnig hækkuðu fasteignafélögin Reitir, Reginn og Eik umtalsvert, Reitir mest, eða um tæp 13 prósent í 386 milljón króna viðskiptum.
Flugfélög og önnur ferðaþjónustufyrirtæki hafa orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á heimsfaraldrinum og það voru þau sem skutust mest upp á við í kauphöllum og leiddu hækkanir dagsins víða. Olíuverð hækkaði líka nokkuð kröftuglega og síðdegis í dag kostaði tunna af Brent-hráolíu tæpa 43 dollara, röskum 8 prósentum meira en í gær.
Að sama skapi varð nokkuð skörp lækkun á hlutabréfaverði ýmissa fyrirtækja sem beinlínis hafa notið góðs af faraldrinum. Til dæmis lækkaði hlutabréfaverð fjarfundaþjónustunnar Zoom skarpt í kauphöllinni í New York og ýmis fyrirtæki sem sérhæfa sig í heimsendingum á matvörum og öðru slíku féllu í verði.
Í umfjöllun Financial Times um stöðu markaða frá því fyrr í dag segir að fjárfestar hafi losað sig við ríkisskuldabréf í töluverðum mæli. Margir þeirra virðist nú veðja á að að ríkissjóðir þurfi ekki að beita sér með jafn miklum þunga í stuðnings- og viðspyrnuaðgerðum vegna faraldursins og útlit hafi verið fyrir.
Uppörvandi tíðindi en spurningum ósvarað
Þessi miklu áhrif jákvæðra tíðinda af bóluefnisþróuninni á heimsmarkaði gefa til kynna að miklar væntingar séu bundnar við það að bóluefni verði töfralausn sem geti fært tilveruna í eðlilegra horf tiltölulega fljótt. Ýmsir vísindamenn hafa tekið tilkynningu Pfizer og BioNTech fagnandi.
Chris Witty, helsti ráðgjafi breskra stjórnvalda í glímunni við COVID-19, sagði til dæmis á Twitter að tíðindin væru uppörvandi og gæfu góð fyrirheit fyrir árið 2021, en lagði þó áherslu á að áfram þyrfti að reyna að bæla niður veiruna.
Tedros A. Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sagði sömuleiðis á Twitter að tíðindin væru jákvæð og að heimurinn væri að sjá fordæmalausa framþróun og samstarf í vísindum til þess að binda endi á heimsfaraldurinn.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Peter Horby, prófessor við Oxford-háskóla, að tíðindin frá Pfizer hafi látið hann brosa út að eyrum. Hann sagði þau marka þáttaskil og að hann finndi fyrir létti, en hann sagði þó ljóst að það væri enn langt þar til að bóluefni myndu byrja að hafa veruleg áhrif.
Í umfjöllun um bóluefnið á vef breska blaðsins Guardian segir þó að ýmsum spurningum sé ósvarað, meðal annars því hversu lengi bólusetningin vari, hvort hún verji þá sem hafa áður smitast af veirunni og hvort bóluefnið komi alfarið í veg fyrir að fólk geti orðið smitast og smitað aðra eða dragi einfaldlega úr alvarleika einkenna þeirra sem sýkjast.
Einnig segir þar og víðar að bóluefni Pfizer og BioNTech þurfi að geyma við við mikið froset, eða um -80°C. Því gæti orðið erfitt að útfæra skjóta og skilvirka dreifingu þess.
Fleiri fyrirtæki skila af sér gögnum á næstunni
Samkvæmt samantekt Reuters um stöðu bóluefnarannsókna má búast við því að fleiri lyfjafyrirtæki á Vesturlöndum sem komin eru langt í þróunarferlinu og inn í klínískar rannsóknir skili gögnum um rannsóknirnar fyrir áramót.
Þeirra á meðal eru bandaríska fyrirtækið Moderna, hið breska AstraZeneca við Oxford-háskóla og lyfjarisinn Johnson & Johnson, en alls eru 11 bóluefni komin á þriðja stig klínískra rannsókna.
Fjölmörg til viðbótar eru í þróun, en hátt á annað hundrað teymi vísindamanna um heim allan eru í kapphlaupi um að þróa bóluefni gegn veirunni, sem allt hefur hverfst um undanfarna 10 mánuði.